Stoltur af strákunum

mbl.is/ Eva Björk Ægisdóttir

Teitur Örlygsson aðstoðarþjálfari Njarðvíkur var að vonum verulega svekktur eftir dramatískt tap Njarðvíkur gegn KR í oddaleik liðanna í undanúrslitum Dominos deildar karla í körfuknattleik í DHL höllinni í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 102:94 fyrir KR eftir tvíframlengdan leik.  

„Maður er bara hálftómur. Þetta er bara búið. Þetta var leikur sem sveiflaðist mikið og þetta var eitt skot til eða frá. Sigurinn gat lent báðum megin og því miður lenti hann þeirra megin í kvöld.“

KR byrjaði leikinn af miklum krafti, en Njarðvík sýndi mikinn karakter með því að koma sér aftur inn í leikum með gríðarlega góðum kafla í öðrum leikhluta.

Stoltur af þeim karakter sem liðið sýndi í leiknum í kvöld

„Ég er ofboðslega stoltur af strákunum. Þeir sýndu frábæran karakter í leiknum hér í kvöld með frábærum stuðning frá fólkinu úr Njarðvík. Við töluðum um það að Njarðvíkingar hætti aldrei sama hvað gerist. Við höldum áfram að gefa allt í leikinn og gerum okkar besta til þess að koma okkur aftur inn í leikinn. 

Okkur langaði mikið að ávinna okkur virðingu og sýna hvað í liðinu býr. Við lögðumst aldrei niður og komum okkur aftur inn í leikinn og ég er rosalega ánægður með þá baráttu sem strákarnir sýndu hér í kvöld. Okkur langaði svakalega að vinna þennan leik og fá að spila til úrslita og öðlast þá virðingu sem mér finnst að liði eigi skilið. Það tókst því miður ekki að þessu sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert