Er keppnin alltof löng?

AFP

Úrslitakeppnin í NBA-deildinni hefst loksins í kvöld eftir nær sex mánaða deildakeppni. Eins og á mörgum undanförnum árum var keppnin í Vesturdeildinni mun meira spennandi, enda leika flest bestu liða deildarinnar þar.

Liðin leika alls 82 leiki í deildakeppninni, en það eru allt of margir leikir. Gunnar Valgeirsson hefur fylgst með NBA-deildinni síðan 1970, og segir í pistli í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag að augljósara sé með hverju árinu að liðin séu að skríða allt of þreytt inn í úrslitakeppnina.

Álagið af fjórum löngum leikseríum í aðra tvo mánuði hefur gert það að verkum að liðin í lokaúrslitunum eru að leika þetta 103 til 106 leiki yfir keppnistímabilið. Þegar á bætast Ólympíuleikar eða heimsmeistarakeppni fyrir bestu leikmennina annað hvert ár, er augljóst að það er allt of mikið álag á bestu leikmönnum deildarinnar.

Margir NBA-sérfræðingar hér vestra eru á þeirri skoðun að fækka ætti deildaleikjunum í 70 og stytta enn að nýju keppnina í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þetta myndi gefa deildinni tækifæri á að gefa leikmönnum lengri hvíld í kringum Stjörnuleikinn og færa lokaúrslitaleikseríuna framar í júnímánuð. Leikmenn yrðu því ferskari þegar í úrslitakeppnina kæmi.

Því miður eru litlar líkur á því að forráðamenn deildarinnar muni stytta tímabilið því allt gengur út á að gefa sjónvarpsstöðvunum, sem fjármagna stærsta hluta innkomu deildarinnar, sem mest sjónvarpsefni. Ef keppnistímabilið yrði stytt, myndi það sjálfsagt þýða að leikmenn og eigendur liðanna myndu fá minni pening í sína vasa. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig því yrði tekið!

Sjá pistil Gunnars um úrslitakeppni NBA-deildarinnar í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert