Washington byrjaði á útisigri

Klay Thompson skorar fyrir Golden State gegn New Orleans í …
Klay Thompson skorar fyrir Golden State gegn New Orleans í leiknum í kvöld. AFP

Washington Wizards hóf úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik á því að vinna góðan útisigur á Toronto Raptors, 96:89, í framlengdum leik í Kanada í kvöld. Toronto endaði í fjórða sæti Austurdeildar og Washington í því fimmta þannig að nú hefur Washington náð undirtökunum.

Staðan var 82:82 eftir venjulegan leiktíma en liðið frá höfuðborginni skoraði ellefu stig gegn aðeins fjórum heimamanna í framlengingunni.

Paul Pierce skoraði 20 stig fyrir Washington og Bradley Beal 16 en Amir Johnson skoraði 18 stig fyrir Toronto og DeMar DeRozan 15.

Golden State Warriors, besta lið deildakeppninnar, vann New Orleans Pelicans eins og vænta mátti á heimavelli sínum í Oakland, 106:99. Stephen Curry skoraði 34 stig fyrir Golden State og Klay Thompson 21 en Anthony Davis gerði 35 fyrir New Orleans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert