Sara Rún á leið í háskólaboltann vestra

Sara Rún Hinriksdóttir er á leið til Bandaríkjanna.
Sara Rún Hinriksdóttir er á leið til Bandaríkjanna. Ómar Óskarsson

Sara Rún Hinriksdóttir, einn besti leikmaður Keflavíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta í vetur, mun yfirgefa liðið í lok úrslitakeppninnar þar sem hún er á leið til Bandaríkjanna í nám.

Þetta kemur fram á karfan.is, en Sara hefur fengið skólastyrk hjá Canisius College í New York. Úrslitarimma Keflavíkur og Snæfells um Íslandsmeistaratitilinn verður því hennar síðasta verkefni með uppeldisfélaginu í bili.

Sara er að ljúka stúdentsprófi og heldur utan í ágúst. Lið Canisius leikur í 1. deild kvennakörfunnar en komust ekki í úrslitakeppni MAAC-riðilsins. Liðið endaði í 9. sæti Metro Atlantic Athletic Conference með 8 sigra og 12 töp í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert