Framhaldið óljóst hjá Dempsey

Israel Martin þjálfari Tindastóls
Israel Martin þjálfari Tindastóls mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Myron Dempsey á erfitt með að opna bæði augu eftir að hafa fengið þungt högg á æfingu á laugardaginn,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, um stöðuna á bandaríska leikmanninum Dempsey sem ekki gat leiki með liðinu gegn KR í kvöld. 

Framhaldið virðist vera nokkuð óljóst. Læknar meta þó meiðslin þannig að ekki sé um alvarlegt mál að ræða og Dempsey ætti að finna mun á sér á hverjum degi. Erfitt er þó að meta hvort hann geti leikið næsta leik til að mynda sem verður á Sauðárkróki á fimmtudaginn. 

„Þetta er í höndum lækna. Myron fór og hitti sérfræðing í dag en við vitum ekki nákvæmlega hvenær hann má spila á ný. Ef hann verður tilbúinn á fimmtudaginn þá bætist hann við hópinn en ef ekki þá er ekkert við því að gera,“ sagði Martin við mbl.is í Frostaskjólinu í kvöld en hann hefur sjálfsagt einnig áhyggjur af Darrell Flake sem glímir við ökklameiðsli og gat ekki beitt sér að fullu í kvöld. 

KR vann 94:74 og tók þar með forystuna í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Eftir nokkuð jafnan fyrsta leikhluta þá náði KR tuttugu stiga forskoti í öðrum leikhluta. „Í öðrum leikhluta voru þeir ákafari en við og létu til sín taka í sóknarfráköstum og fengu fyrir vikið oft annað tækifæri í sömu sókninni. Þeir tóku of mörg sóknarfráköst og úrslitin voru nánast ráðin að loknum fyrri hálfleik. Við þurfum að bæta okkur í fráköstunum og stíga þá betur út í vörninni,“ sagði Spánverjinn Martin ennfremur við mbl.is. 

Helgi Rafn Viggósson sækir að körfu KR í kvöld.
Helgi Rafn Viggósson sækir að körfu KR í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert