Warriors og Bulls á sigurbraut

Klay Thompson treður með tilþrifum í leik Golden State Warriors …
Klay Thompson treður með tilþrifum í leik Golden State Warriors og New Orleans Pelicans. AFP

Golden State Warriors náði tveggja vinninga forskoti í rimmu sinni í New Orleans Pelicans í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik með tíu stiga sigri á heimavelli sínum í nótt, 97:87. Leikmenn Chicago Bulls hafa einnig tvo vinninga í einvígi sínu við Milwaukee Bucks eftir, 91:82, sigur á heimavelli.

Báðum rimmum getur lokið á fimmtudagskvöldið þegar liðin leiða saman hesta sína á nýjan leik. 

Jimmy Butler skoraði 31 stig og tók níu fráköst fyrir Chicago, Derrick Rose skoraði 15 stig og tók níu fráköst, Mike Dunleavy skoraði 12 stig og Pau Casol var með 11 stig  auk 16 frákasta. Þá tók Joakim Noah 19 fráköst fyrir Chicago. Khris Middleton skoraði 22 stig fyrri Bucks, Michael Carter-Williams skoraði 12 stig. Giannis Antetokounmpo tók 11 fráköst og skoraði sex stig. 

Klay Thompson fór mikinn í fjórða leikhluta og skoraði þá 14 af 26 stigum sínum fyrir Warrios í sigurleiknum á Pelicans en leiðir liðanna skildu ekki fyrr en þá. Stephen Curry skoraði 22 stig og Draymond Green skoraði 14 stig og tók 12 fráköst. Anthony Davis var með 26 stig fyrir Peicans og Eric Gordon 23. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert