Allt annað í kvöld

Finnur Freyr Stefánsson
Finnur Freyr Stefánsson mbl.is / KRISTINN INGVARSSON

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var kampakátur að loknum þriðja leik KR og Tindastóls í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla í körfuknattleik. Lokatölur í leiknum í kvöld urðu 104:91 fyrir KR sem er þar með komið í 2:1 forystu og getur tryggt sér titilinn á Sauðarkróki á miðvikudaginn kemur.

„Þetta var allt annað en í síðasta leik. Við vorum ákveðnari í okkar aðgerðum og hittum mikið í betur í kvöld en fyrir norðan. Við fengum fullt af opnum skotum í síðasta leik sem að við nýttum illa, en í kvöld nýttum við betur þau opnu skot sem við sköpuðum okkur með góðum sóknaraðgerðum.“

„Varnarleikurinn small í kvöld og það sem meira var að við náðum að nota þennan sterka varnarleik til þess að búa til auðveldar körfur. Það er gríðarlega mikilvægt að nota þá orku sem að við setjum í varnarleikinn í það að refsa með auðveldum körfum. Við verðum að vera ferskir á löppunum og tilbúnir að hlaupa í bakið á mönnum ef að þeir klikka“

Ætlum að klára þetta á miðvikudaginn

„Við héldum haus allan leikinn í kvöld og ég er gríðarlega ánægður með það. Við hleyptum þeim aldrei inn í leikinn eftir hafa náð þægilegri forystu og það er afskaplega jákvætt. Við spiluðum af fullum krafti í heilan leik í kvöld og það er það sem þarf að gera í einvígi eins og við erum í núna.“

„Það er kominn tími til þess að við spilum vel á Sauðarkróki og stefnan er að sjálfsögðu að tryggja okkur titilinn þar. Síkið er frábært hús, þangað koma frábærir áhorfendur og við erum að spila við frábært lið. Við hlökkum bara til að fara norður og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vinna þar og tryggja okkur titilinn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert