Brynjar vill hafa Dempsey með

Brynjar Þór Björnsson og Svavar Atli Birgisson í gólfinu í …
Brynjar Þór Björnsson og Svavar Atli Birgisson í gólfinu í leiknum í kvöld. mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Brynjar Þór Björnsson var maður kvöldsins þegar KR vann öruggan sigur á Tindastóli 104:91 í öðrum úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratilinn í körfuknattleik. Brynjar skoraði 26 stig þó hann hafi verið hvíldur lengi vel í fjórða leikhluta. 

Brynjar setti niður 6 þrista í 9 tilraunum og skotnýting hans var því afar góð rétt eins og í fyrsta leik liðanna sem KR vann einnig í DHL-höllinni. „Við viljum meina að þegar við eigum okkar besta leik þá standist fá lið á Íslandi okkur snúning. Þegar við hittum vel eins og í kvöld þá er erfitt að vinna okkur. Það er allt annað að spila á heimavelli og hér erum við ósigraðir í vetur. Okkur líður vel hérna og þeim líður vel í Síkinu. Við ætlum okkur svo sannarlega að fara norður og klára dæmið. Við ætlum ekki að koma aftur í Vesturbæinn í oddaleik,“ sagði Brynjar Þór við fjölmiðla að leiknum loknum. 

Spurður um forföllinn hjá Tindastóli þá sagði Brynjar að KR-ingar væru ekki að velta því of mikið fyrir sér en sagðist vona að Myron Dempsey verði með Stólunum í næsta leik. „Ég vona bara að Dempsey verði með. Auðvitað viljum við hafa alla heila og að allir séu með. Okkur var þó ekkert vorkennt þegar Pavel meiddist og þá hlakkaði líklega í mörgum,“ sagði Brynjar ennfremur. 

Fyrir þá sem þekkja ekki til þá hefur Bandaríkjamaðurinn Myron Dempsey ekki getað leikið með Tindastóli í úrslitarimmunni vegna höfuðhöggs sem hann fékk á æfingu en hafði leikið afar vel fyrir Tindastól í vetur. 

Myron Dempsey er að jafna sig á heilahristingi.
Myron Dempsey er að jafna sig á heilahristingi. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert