James mætti með sópinn til Boston

Jae Crowder hjá Boston reynir að stöðva LeBron James í …
Jae Crowder hjá Boston reynir að stöðva LeBron James í leiknum í kvöld. AFP

LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Austurdeildar NBA í körfubolta með því að vinna gamla stórveldið Boston Celtics, 101:93, í fjórða leik liðanna sem fram fór í Boston.

Cleveland vann þar með einvígið, 4:0, og því má segja að James hafi mætt með sópinn með sér til Boston og sent þar heimamenn í sumarfrí. James skoraði 27 stig og átti 8 stoðsendingar fyrir Cleveland, sem var komið með örugga forystu í hálfleik, 57:36. Boston náði að minnka muninn í sex stig, 99:93, á lokamínútunni en komst ekki nær.

Kyrie Irving skoraði 24 stig fyrir Cleveland sem missti Kevin Love af velli í fyrsta leikhluta vegna meiðsla í öxl. Þeir Isiah Thomas og Jared Sullinger skoruðu 21 stig hvor fyrir Boston.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert