Lærir mest af því að tapa

Kári Maríasson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, var svekktur en brattur að loknum þriðja leik KR og Tindastóls í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla í körfuknattleik. Lokatölur í leiknum í DHL höllinni í kvöld urðu 104:91 fyrir KR sem er þar með komið með 2:1 forystu í einvíginu.

Kári er langt frá því að vera af baki dottinn þrátt fyrir tapið í kvöld og telur að Tindastóll muni læra af þessu tapi og það muni skila sér þegar fram í sækir.

„Mér fannst við vera í ágætum í málum í fyrri hálfleik og alveg þangað til að þeir ná áhlaupi á okkur í þriðja leikhluta. Ég held samt sem áður að við höfum lagt grunninn að Íslandsmeistaratitlinum með þessu tapi hér í kvöld. Maður lærir nefnilega mest af því að tapa.“

Kári var nokkuð viss um það hvað Tindastóll þyrfti að laga í leiknum á Sauðarkróki á miðvikudaginn til þess að tryggja sér fimmta leikinn.

„Það sem okkur tókst vel fyrir norðan í öðrum leiknum var að stoppa Brynjar (Brynjar Þór Björnsson), Darra (Darra Hilmarsson) og Helga Má (Helga Má Magnússon). Þessir þrír leikmenn eru kjölfestan í þessu KR liði og við lögðum upp með að halda þeim í skefjum áfram. Það gekk hins vegar ekki sem skyldi í leiknum í kvöld. Við vitum að við við getum ekki komið í veg fyrir að Michael Craion skori 20 stig eða meira. En ef að við getum stoppað þessa þrjá leikmenn sem ég taldi upp áðan þá er það lykillin að því að vinna KR.“

Ætlum okkur aftur í Vesturbæinn

„Ég er gríðarlega ánægður með stuðninginn í einvíginu hingað til og býst fastlega við að það verði fullt hús á miðvikudaginn. Sá stuðningur og baráttan í liðinu mun skila okkur aftur hingað í Vesturbæinn.“

„Við munum leggja allt í sölurnar í næsta leik á Sauðarkróki og ætlum okkur að jafna einvígið þar. Okkur langar að koma hingað í hreinan úrslitaleik og tryggja okkur titilinn. Það er hins vegar sama hvernig allt fer, þegar upp er staðið, þá tökum við allt út úr þessu einvígi og þetta fer í reynslubankann hjá leikmönnum. Bæði hjá ungu leikmönnunum í leikmannahópnum sem og hjá þeim eldri.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert