„Náðum ekki að stopa Brilla“

Helgi Freyr Margeirsson skoraði 9 stig í kvöld.
Helgi Freyr Margeirsson skoraði 9 stig í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Helgi Freyr Margeirsson var nokkuð brattur þegar mbl.is ræddi við hann í kvöld þrátt fyrir að Tindastóll hafi tapað fyrir KR 104:91 í þriðja leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. 

„Nú þurfum að taka næsta leik heima og koma svo aftur hingað. Þetta verður áframhaldandi barátta en við erum hvergi bangnir. Við munum mæta tilbúnir í næsta leik og verðum ferskir hérna í oddaleiknum,“ sagði Helgi Freyr en KR er nú 2:1 yfir í rimmunni en vinna þarf þrjá til að verða Íslandsmeistari. 

„Alveg eins og í síðasta leik hér þá hleyptum við þeim of langt frá okkur á stuttum kafla. Það er ekki hægt. Brilli (Brynjar Þór Björnsson) snögghitnaði í báðum leikjum og við fylgdum honum ekki nógu vel. Hjá þeim voru bara þrír að skora í fyrri hálfleik en sex hjá okkur. En það vantaði meiri takt í sóknina hjá okkur í og vörninni skildum við Brilla eftir allt of oft. Við náðum bara ekki að stoppa hann,“ benti Helgi á sem skoraði 9 stig í kvöld.

Tindastóll hefur ekki notið krafta Myron Dempsey í leikjunum þremur gegn KR en hann er að jafna sig eftir höfuðhögg. „Við eigum Dempsey inni þó menn vilji ekki tala mikið um það. KR myndi sakna Craion svona til samanburðar. Dempsey verður betri frá degi til dags en þetta var heilahristingur og þá þurfa menn að fara varlega. Hann þarf að standast einhver próf áður en hann getur spilað,“ sagði Helgi Freyr Margeirsson leikmaður Tindastóls við mbl.is í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert