Við komum hingað aftur

Helgi Rafn Viggósson, leikmaður Tindastóls, var vitanlega svekktur eftir þriðja leik Tindastóls og KR í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla í körfuknattleik í DHL höllinni í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 104:91 fyrir KR sem er þar af leiðandi komið með 2:1 forystu í einvíginu. 

„Við spiluðum ekki þá vörn sem við ætluðum að spila í kvöld. Við ætluðum að spila kraftmikla og hreyfanlega vörn en það tókst ekki hér í kvöld. Það var svo slæmur kafli í þriðja leikhluta sem að varð þess valdandi að við töpuðum hér í kvöld.“

„Við leyfðum Craion (Michael Craion) til dæmis að komast allt of auðveldlega að körfunni og hann skorar 29 stig. Brynjar (Brynjar Þór Björnsson) var sjóðandi heitur her í kvöld. Við þurfum að gera miklu betur varnarlega á miðvikudaginn ef vel á að fara. Við skorum 94 stig í leiknum í kvöld og það á að duga til sigurs. Það að fá á sig 104 er augljóslega allt of mikið.“

Þurfum að spila betri vörn

„Nú þurfum við bara að ná aftur upp sömu vörn og við spiluðum í öðrum leiknum. Þar skora þeir 72 stig ef ég man rétt. Það er vörnin sem að mun vinna leiki fyrir okkur í þessu einvígi það er alveg klárt.“

„Ég er alveg viss um að við lögum það sem aflaga fór í kvöld í næsta leik og að við munum mæta klárir í það verkefni. Við erum langt því frá að vera hættir og við eigum eftir að koma hingað aftur. En til þess þurfum við að ná að spila aftur þá vörn sem að við erum þekktir fyrir.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert