Þreföld tvenna hjá LeBron

LeBron James sækir að körfunni.
LeBron James sækir að körfunni. AFP

Cleveland er komið í 3:0 í einvíginu gegn Atlanta Hawks í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Liðin mættust á heimavelli Atlanta og í framlengdum leik fagnaði Cleveland sigri, 114:111.

Þrátt fyrir að ganga ekki heill til skógar átti LeBron James stórleik og náði í fyrsta sinn í úrslitakeppni að skora þrefalda tvennu. Hann skoraði 37 stig, tók 18 fráköst og átti 13 stoðsendingar.

„Sama hvernig mér líður. Mér leið eins og ég gæti ekki meira en hugurinn fleytti mér áfram,“ sagði LeBron James eftir leikinn en fyrstu tíu skot hans í leiknum geiguðu en tryggði sínum mönnum sigurinn með því að skora fimm síðustu stig liðsins.

Matthew Dellavedova og J.R. Smith voru með 17 stig hvor fyrir Cleveland en hjá Atlanta var Jeff Teague stigahæstur með 30 stig og Paul Millsap var með 22 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert