Íslenska liðið í sjötta sæti

Kristinn Pálsson var valinn í úrvalslið mótsins.
Kristinn Pálsson var valinn í úrvalslið mótsins. Ljósmynd / karfan.is

Íslenska U18 ára landslið í körfuknattleik karla lauk keppni í gær í B deild Evrópukeppninnar sem fram fór í Austurríki. Strákarnir léku lokaleikinn sinn gegn Ungverjum og tapaðist sá leikur 84:75. Niðurstaðan varð því sjötta sætið, en liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í undanúrslitum á mótinu. 

Ungverjar hófu leikinn í gær af miklum krafti í dag og náðu snemma 10 stiga forystu og má segja að það hafi verið á brattann að sækja hjá íslenska liðinu eftir þessa slæmu byrjun. Staðan í hálfleik var 45:37 fyrir Ungverja. 

Ísland náði reyndar nokkrum sinnum að minna muninn í tvö og þrjú stig, en Ungverjar svöruðu ávallt með áhlaupum á móti. Að lokum fór svo að Ungverjar náðu muninum aftur upp í tæp 10 stig og þar við sat og sigur þeirra sanngjarn.

Jón Arnór Sverrisson og Þórir Þorbjarnarson voru atkvæðamestir í íslenska liðinu í dag. Jón Arnór gerði 21 stig, tók 6 fráköst, stal 3 boltum og gaf 3 stoðsendingar. Þórir gerði 20 stig, tók 5 fráköst og stal 2 boltum. Ragnar Helgi Friðriksson og Kristinn Pálsson voru með 8 stig hvor og Kristinn með 10 fráköst að auki.

Kristinn Pálsson var svo valinn í úrvalslið mótsins, en hann var með 18,2 stig, 7,7 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali á leik á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert