Fara varlega með Pavel

Pavel Ermolinski er mikilvægur hlekkur í íslenska landsliðinu.
Pavel Ermolinski er mikilvægur hlekkur í íslenska landsliðinu. mbl.is/Eva Björk

Pavel Ermolinski var ekki með íslenska körfuboltalandsliðinu þegar það tapaði fyrir Póllandi í kvöld í einum af síðustu æfingaleikjum sínum fyrir Evrópumótið sem hefst um næstu helgi.

Eins og fram hefur komið á Pavel við meiðsli í nára að stríða og Finnur Freyr Stefánsson segir að menn vilji gæta ítrustu varúðar svo að Pavel geti beitt sér sem mest á sjálfu Evrópumótinu.

„Við erum að fara varlega með hann. Hann er að vinna með styrktar- og sjúkraþjálfurunum okkar á hverjum degi og við viljum bara ekki að hann fari of snemma af stað,“ sagði Finnur.

„Það er alls ekki langt í hann en það er spurning hvort hann tekur einhverjar mínútur á morgun [gegn Líbanon] og verði svo meira með gegn Belgum á sunnudag, eða hvort hann fái líka hvíld á morgun. En það er ekki þannig að það séu engar líkur á að hann spili í þessum leikjum, við þurfum bara að vera skynsamir,“ sagði Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert