Einn stærsti leikur á ferli Jóns Arnórs

„Leikurinn á morgun verður einn af þeim stærstu á mínum ferli,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við mbl.is í Berlín í dag en á morgun mæta Íslendingar liði Þjóðverja í fyrsta leiknum í B-riðli lokakeppni EM.

Jón hefur víðtæka reynslu af stórleikjum í körfubolta. Hannvarð Evrópumeistari með Dynamo Saint Petersburg á sínum tíma, var ungur á samningi hjá Dallas Mavericks, lék í úrslitarimmu um ítalska titilinn og var nú síðast í vor í oddaleik gegn Barcelona í undanúrslitunum á Spáni.

„Þetta er kannski öðruvísi af því að þetta er með landsliðinu. Tilfinningin er allt önnur. Maður er að drepast úr stressi en á sama tíma rosalega spenntur og ánægður að fá að kljást við þetta svakalega verkefni,“ sagði Jón meðal annars. 

Ísland er í riðli með Þýskalandi, Ítalíu og Spáni en Jón hefur leikið með félagsliðum í öllum þessum löndum. Spurður um hvort leikmenn þessara þjóða muni vanmeta íslenska liðsins þó að um lokakeppni sé að ræða, sagðist Jón ekki útiloka það en bætti því við að menn hljóti að bera einhverja virðingu fyrir öllum þeim liðum sem komast í keppni á borð við þessa.

Viðtalið við Jón í heild sinni má nálgast í meðfylgjandi myndskeiði.

Jón Arnór Stefánsson í landsleik gegn Hollandi í sumar. Landsliðsþjálfarinn …
Jón Arnór Stefánsson í landsleik gegn Hollandi í sumar. Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen fylgist með. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert