Ragnar heldur léttleikanum gangandi

Ragnar Nathanaelsson
Ragnar Nathanaelsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Mbl.is spurði miðherjann hávaxna, Ragnar Nathanaelsson, hvort rétt væri að hann héldi uppi móralnum í landsliðshópnum sem mun hefja leik á EM í Berlín í dag. 

„Já það er eitt af mörgum hlutverkum sem ég hef tekið að mér í liðinu, að reyna að halda léttleikanum gangandi yfir allt mótið. Mér hefur gengið misvel með leikmenn en á heildina litið er þetta þokkalega vel gert að mér finnst,“ sagði Ragnar og glotti en hann kvartar ekki yfir andanum í íslenska landsliðshópnum. 

„Auðvitað er þetta í fyrsta skipti sem við förum á svona stórt mót og við reynum að njóta hvers augnabliks eins vel og við getum til hins ítrasta. Við verðum að njóta þess að vera hérna og ef manni líður vel þá er lundin létt,“ sagði Ragnar ennfremur. 

Ragnar er langhávaxnasti leikmaður Íslands en hann mælist 218 cm. Næstur kemur Pavel Ermolinskij sem er 202 cm. Hjá andstæðingum Íslands er ekki óalgengt að fleiri en einn leikmaður sé yfir 210 cm. 

„Margir í þessum liðum er hávaxnir. Til dæmis hjá Spáni og Þýskalandi. Ég kem til með að kljást við nokkra hávaxna menn. Þetta verður nýtt fyrir mig því ég hef ekki spilað oft á mót mönnum sem eru jafn háir og ég. Það verður spennandi að sjá hvernig maður er á móti þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert