Tindastóll sendir útlendinginn heim

Stuðningsmenn Tindastóls.
Stuðningsmenn Tindastóls. mbl.is / Árni Sæberg

Körfuknattleikslið Tindastóls hefur ákveðið að leysa Darren Townes undan samningi við félagið og mun hann því ekki taka slaginn með liðinu í Dominos-deildinni sem hefst um miðjan mánuðinn. Þetta staðfesti Pieti Poikola, þjálfari liðsins, við karfan.is nú í kvöld.

Townes lék fimm leiki með Tindastól í Lengjubikarnum sem lauk í gær, en í leikjunum skoraði hann 13,4 stig, tók 7,8 fráköst og gaf 2,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Poikola segir liðið vera í leit að öðruvísi leikmanni.

„Eftir þrjár vikur hér við það að kynnast leikmannahópnum kom það á daginn að þarfir okkar eru öðruvísi en þær sem Townes getur sinnt. Ég harma þessi mistök því það er aldrei gott fyrir leikmann að fá reisupassann. Á hinn bóginn er það markmið okkar að vinna deildina og til þess þurfum við að gera þessar breytingar svo það geti orðið að veruleika,“ sagði Poikola við karfan.is, en liðið hefur ekki samið við nýjan leikmann.

„Það liggur í augum uppi að við viljum fá til okkar leikmann eins fljótt og auðið er, en fyrst þarf að semja við hann,“ sagði hinn finnski Poikola við karfan.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert