„Ánægður með frammistöðu minna drengja“

Eysteinn Bjarni Ævarsson sækir að körfu Grindavíkur í leiknum í …
Eysteinn Bjarni Ævarsson sækir að körfu Grindavíkur í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Atli Berg Kárason

Höttur var í dauðafæri á að landa sínum öðrum sigri í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Grindvíkingar náðu hins vegar að tryggja sér framlengingu og landa á endanum öruggum sigri, 81:71. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var þrátt fyrir það sáttur við sína menn í leikslok.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var þrátt fyrir það sáttur við sína menn í leikslok. "Þetta var bara mjög jafnt allan tímann. Við fórum mest 10 stig yfir en síðan jafna þeir og í lokin gat þetta dottið beggja vegna. En ég var bara ánægður með frammistöðuna í dag. Við sýndum hérna hörku frammistöðu.

Varnarleikurinn var mjög góður. Sóknarleikurinn var ekki eins góður og á móti Njarðvík, við vorum kannski fullhægir á köflum, en varnarleikurinn var fínn. Við vorum reyndar að gefa þeim fullmikið af sóknarfráköstum á kafla í fyrri hálfleik, en við löguðum það. Í lokin höfðum við síðan bara ekki orku á tanknum til að klára þetta. Við fáum reyndar lokaskotið en það vildi ekki niður. En heilt yfir var ég bara mjög ánægður með frammistöðu minna drengja í dag."

Það vakti nokkra athygli að Charles Garcia, hinn bandaríski miðherji Grindvíkinga, sat meira og minna á bekknum allan fjórða leikhluta og þar á meðal hinar æsispennandi lokasekúndur. "Grindavíkurliðið er með mjög góða einstaklinga innanborðs" sagði Viðar. "Þessi Kani þeirra á kannski eftir að slípast betur inn í þeirra leik en þeir eru með mjög vel mannað lið og eru kannski vanari því en við að fara í framlengingu og þurfa að taka stór skot. Það er reynsla sem fáir í okkar liði hafa."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert