Sigurgangan heldur áfram

Stephen Curry og félagar slá ekkert af.
Stephen Curry og félagar slá ekkert af. AFP

Ekkert lát er á sigurgöngu Stephen Curry og félaga í Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik. Þeir unnu í gærkvöldi sinn 48. leik í deildinni þegar þeir sótti liðsmenn Phoenix heim, 112:104, í leik þar sem leiðir skildu í öðrum leikhluta. 

Margt hefur gengið leikmönnum Phoenix í mót á þessu keppnistímabili og hefur liðið aðeins unnið 14 af 54 leikjum sínum. Þeir voru fyrir vikið ekki mikil mótstaða fyrir Curry og samherja hans sem aðeins hafa tapað fjórum af 52 viðureignum sínum. Curry skoraði 26 stig auk þess að eiga níu stoðsendingar og taka níu fráköst. Klay Thompson kom næstur með 24 stig. Archie Goodwin skoraði 20 stig fyrir Phoenix-liðið og Markieff Morris skoraði einu stigi færra. 

Kyrie Irving skoraði 35 stig fyrir Cleveland Caveliers þegar liðið vann gamla stórveldið, LA Lakers, á heimavelli, 120:111. LeBron James skoraði 29 stig fyrir Caveliers. Louis Williams skoraði 28 stig fyrir Lakers og Jordan Clarkson 22 og Kobe Bryant 17.

Lakers hefur aðeins unnið 11 af 55 leikjum tímabilsins en Cavaliers 38 af 52. 

Leikmenn San Antonio Spurs, sem eru með næst besta sigurhlutfallið í NBA-deildinni, komust í hann krappann á útivelli gegn Orlando Magic. Þeim tókst að knýja fram tveggja stiga sigur áður en flautað var til leiksloka, 98:96. Kawhi Leonard skoraði 29 stig og LaMarcus Aldridge 21 fyrir Spurs sem unnið hefur 45 leiki af 53. Evan Fournier skoraði 28 stig fyrir Orlando-liðið.

Tólf leikir voru á dagskrá NBA-deildarinnar í gærkvöldi og í nótt. Úrslit þeirra voru sem hér segir:

Indiana - Charlotte 95:117
Orlando - San Antonio Spurs 96:98
Philadelphia - Sacramento 110:114
Boston - LA Clippers 139:134 - eftir framlengingu.
Brooklyn - Memphis 90:109
Detroit - Denver 92:103
Cleveland - LA Lakers 120:111
Chicago - Atlanta 90:113
Minnesota - Toronto 117:112
New Orleans - Utah Jazz 100:96
Phoenix - Golden State 104:112
Portland - Houston 116:103

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert