Snæfell bikarmeistari í fyrsta sinn

Snæfell og Grindavík mættust í úrslitaleik Powerade-bikarsins í körfuknattleik kvenna í Laugardalshöllinni í dag. Snæfell bar sigur úr býtum í leiknum og er þar af leiðandi bikarmeistari í körfuknattleik kvenna árið 2016. 

Þetta er í fyrsta skipti sem kvennalið Snæfells verður bikarmeistari, en liðið er einnig ríkjandi Íslandsmeistari. 

Gunnhildur Gunnarsdóttir átti frábæran leik í liði Snfælls og skraið 23 stig líkt og Haiden Denise Palmer.

Whitney Michelle Frazier var atkvæðamest í liði Grindavíkur sem átti titil að verja með 32 stig. 

40. Leik lokið með sigri Snæfells, en lokatöur urðu 77:70 Snæfell í vil.  

39. Snæfell - Grindavík 75:68. Gunnhildur kórónar frábæran leik sinn með því að fara langt með að tryggja sigur Snæfells með tveggja stiga körfu. Sjö stiga munur og 37 sekúndur eftir. Grindavík tekur leikhlé. 

38. Snæfell - Grindavík 72:63. Smá von fyrir Grindavík eftir góðan kafla, en Palmer dempar þær vonir með stigi af vítalínunni. Grindavík missir svo boltann og þetta fer að verða ansi langsótt hjá Grindavík. 

37. Snæfell - Grindavík 71:60. Snæfell er sterkari þessa stundina og virðist vera að sigla sigrinum í land. 

35. Snæfell - Grindavík 69:60. Góður kafli Snæfells og Grindavík tekur leikhlé.  

34. Snæfell - Grindavík 63:57. Mikil barátta þessa stundina en lítið skorað. 

33. Snæfell - Grindavík 63:55. Risastór þriggja stiga karfa Bjargar Einarsdóttur kemur Grindavík aftur inn í leikinn. Alda Leif svarar fyrir Snæfell með tveimur stigum. 

30. Þriðja leikhluta er lokið. Snæfell - Grindavík 59:52. Snæfell heldur áfram forystu sinni. Gunnhildur hefur haft hægar um sig í seinni hálfleik en er samt sem áður stigahæt í liði Snæfells með 21 stig. Frazier dregur vagninn sóknarlega fyrir Grindavík með 26 stig. 

28. Snæfell - Grindavík 53:47. Palmer nær fjögurra stiga forskoti fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu. Palmer bætir svo um betur með því að skora og fær vítaskot að auki sem geigar, en hún tekur hins vegar frákastið sjálf. 

25. Snæfell - Grindavík 48:47. Frazier skorar og fær vítaskot að auki sem hún setur niður. Ingunn Embla Kristínardóttir setur niður þriggja stiga körfu og munurinn eingöngu eitt stig.  

22. Snæfell - Grindavík 46:39. Enn allt í járnum og liðin skiptast á að skora. Grindavík þarf hins vegar áhlaup til að komast yfir

20. Hálfleikur. Snæfell - Grindavík 41:34. Snæfell fer með sjö stiga forskot inn í hálfleikinn eftir fjörugn og jafnan fyrri hálfleik. Snæfell hefur haft forystuna allan hálfleikinn. Gunnhildur Gunnarsdóttir hefur leikið frábærlega fyrir Snæfell og hefur skorað 19 stig á meðan Frazier er allt í öllu sóknarlega hjá Grindavík með 17 stig. 

18. Snæfell - Grindavík 34:31. Sveiflurnar halda áfram og aftur er Grindavík búið að minnka muninn niður í þrjú stig. 

15. Snæfell - Grindavík 29:21. Palmer og Gunnhildur auka muninn aftur með tveimur körfum Snæfells í röð.  

12. Snæfell - Grindavík 22:19. Grindavík byrjar leikhlutann afskaplega vel og munurinn er aðeins þrjú stig. Leikmenn Grindavík eru gríðarlega grimmir í varnarleiknum og það skilar svo auðveldum körum hinum megin. 

10. Fyrsta leikhluta er lokið. Snæfell - Grindavík 22:15. Eftir slæma byrjun kom Grindavík sér inn í leikinn. Snæfell náði hins vegar góðum kafla undir lok leikhlutans og hefur sjö stiga forskot. Gunnhildur Gunnarsdóttir er stigahæst í liði Snæfells en Frazier  hefur verið atkvæðamest í stigaskorun Grindavíkur.  

8. Snfæfell - Grindavík 14:9. Leikhléið hefur vakið Grindavík til lífsins. og þær hafa náð að minnka muninn með sterkri vörn og áræðnum sóknarleik. Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara Snæfells, líst ekki á blikuna og tekur leikhlé. 

6. Snæfell - Grindavik 11:2. Berglind eykur muninn fyrir Snæfell af vítalínunni. Bryndís eykur muninn frekar úr hraðaupphlaupi. Eftir að Berlglind kemur Snæfell níu stigum yfir fær Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur nóg og tekur leikhlé. 

4. Snæfell - Grindavík 5:2. Sigrún Sjöfn skorar fyrstu stig leiksins og kemur Grindavík yfir. Gunnhilur tekur mesta hrollinn úr Snæfell með þriggja stiga körfu. Gunnhildur bætir svo um betur með tveimur stigum. Mikil spenna á fyrstu mínútunum og og lítið skorað. 

1. Leikurinn er hafinn í Laugardalshöllinni. 

0. Byrjunarlið Snæfell: Gunnhildur (f), Palmer, Bryndís, Berglind og Hugrún Eva.

0. Byrjunarlið Grindavík: Írís (f), Sigrún Sjöfn, Frazier, Petrúnella og Ingibjörg. 

0. Leifur S. Gardarsson og Ísak Ernir Kristinsson munu dæma leikinn. 

0. Grindavík hefur tvívegis orðið bikarmeistari og hefur titil að verja. Snæfell sem er ríkjandi Íslandsmeistari hefur hins vegar tvisvar sinnum farið í bikarúrslit og tapaði í bæði skiptin. 

0. Snæfell er á toppi Domino's deildarinnar með 18 stig á meðan Grindavík er í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig. Slík tölfræði skiptir hins vegar engu máli þegar komið er út í bikarúrslitaleik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert