Tuttugu stig í tapleik

Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Jakob Örn Sigurðarson og samherjar í Borås máttu þola tap á heimavelli í æsispennandi og framlengdum leik gegn Luleå í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag, 95:98.

Jakob lék mjög vel en hann skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og átti eina stoðsendingu, og spilaði mest allra í liði Borås eða í rúmar 39 mínútur.

Jakob tryggði liði sínu framlenginguna þegar hann jafnaði, 82:82, með 3ja stiga skoti rétt fyrir leikslok. Fjórum sekúndum fyrir lok framlengingar reyndi hann það sama en þá geigaði 3ja stiga skot landsliðsmannsins og Luleå fagnaði sigri.

Í gærkvöld skoraði Hlynur Bæringsson 22 stig fyrir Sundsvall í tapleik gegn Malbas, 98:89.

Södertälje er með 48 stig á toppi deildarinnar, Luleå er með 40 stig, Norrköping 38, Borås 32 og Sundsvall er með 28 stig í fimmta sætinu.

Í grísku úrvalsdeildinni fór Hörður Axel Vilhjálmsson með liði sínu,  Trikala, til eyjarinnar Rhodos í dag og beið þar lægri hlut fyrir Kolossos Rhodos, 79:69. Hörður lék í 23 mínútur en náði ekki að skora. Hann tók eitt frákast og átti tvær stoðsendingar. Trikala er í tíunda sæti af fjórtán liðum í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert