Blóð, sviti og tár á bakvið sigurinn

Stuðningsmenn KR fagna á Ásvöllum í kvöld.
Stuðningsmenn KR fagna á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurftum að glíma við ýmis konar vandamál í vetur, en við búum svo vel að geta leitað í afar stöndugan reynslubanka sem liðið býr yfir. Mér finnst leiðin að þessum Íslandsmeistaratitli sú erfiðasta af þeim þremur sem við höfum unnið síðustu þrjú ár,“ sagði Pavel Ermolinskij, leikmaður KR, eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð með sigri gegn Haukum í kvöld.   

„Við þurftum að viðhalda þeim gæðaflokki í spilamennsku sem við höfum sýnt undanfarin ár og þá voru góðar líkur á að við yrðum Íslandsmeistarar þriðja árið í röð. Það er ekkert auðvelt að halda einbeitingu eftir að hafa verið svona sigursælir og á köflum í vetur misstum við neistann. Okkur tókst hins vegar að gefa í þegar þess þurfti og tryggja okkur titilinn, sagði Pavel um veturinn í heild sinni. 

„Við höfum lagt mikið á okkur til þess að standa uppi sem sigurvegarar og ekki síst andlega. Það getur reynst þrautinni þyngri að finna hvatningu til þess að halda áfram að sigra eftir sigursælan tíma. Það er oft talað um að við eigum að vinna og hlutirnir komi bara af sjálfu sér. Það er hins vegar alls ekki raunin og það liggur blóð, sviti og tár að baki þessum sigri,“ sagði Pavel um lykilinn að sigri KR liðsins.

Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, hefur gefið það út að leikurinn í kvöld hafi verið hans síðasti og hann muni leggja skóna á hilluna. Pavel er hins vegar ekki á sama máli og telur að hann muni leika með Helga Má á nýjan leik.

Helgi Már [Magnússon] er frábær körfuboltamaður og frábær liðsfélagi. Það er algerlega yndislegt að spila með honum og það er frábært að hann hafi náð að kveðja með þessum hætti. Helgi Már er hins vegar ekki hættur, ég bara neita að trúa því og ég tel að hann muni snúa aftur á einhverjum tímapunkti,“ sagði Pavel um samherja sinn. 

Pavel Ermolinskij, leikmaður KR, sækir að körfu Hauka í leik …
Pavel Ermolinskij, leikmaður KR, sækir að körfu Hauka í leik liðanna í kvöld. mbl.is / Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert