KR vel komið að titlinum

Brynjar Þór Björnsson fyrirliði KR lyftir Íslandsbikarnum á Ásvöllum.
Brynjar Þór Björnsson fyrirliði KR lyftir Íslandsbikarnum á Ásvöllum. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla þriðja árið í röð með því að sigra Hauka nkkuð örugglega, 84:70, í fjórða úrslitaleik liðanna í Schenker-höllinni á Ásvöllum í kvöld.

Staðan var 2:1 fyrir KR fyrir leikinn og gátu þeir því hampað Íslandsmeistaratitlinum með sigri. Þetta gátu þeir líka síðasta mánudag á heimavelli en þá náðu Haukar að vinna frækinn sigur eftir framlengdan leik. KR-ingar létu hinsvegar ekkert stöðva sig í kvöld og lagði liðið Hauka nokkuð örugglega, 80:74, eftir mjög spennandi fyrri hálfleik en staðan eftir hann var 43:39 KR í vil.

Leikurinn var harður, skemmtilegur og mjög spennandi frá fyrstu mínútu og alveg þar til krítísk augnablik í fjórða hluta skildu liðin að. Haukar eiga hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu í leiknum en skammir fyrir að missa hausinn á þessum umræddu augnablikum; Haukamenn gefa hinsvegar gengið keikir af velli því þeir sýndu í hvað liðinu býr og gáfu KR verðuga keppni.

KR eru Íslandsmeistarar þriðja árið í röð og svo sannarlega vel að því komnir, sem og deildarmeistaratitlinum og bikartitlinum. Hin heilaga þrenna er í húsi Vesturbæjar og óskum við þeim til hamingju og alveg óumdeilt hvaða lið er best á landinu.

Haukur Óskarsson, sem átti afleitan dag í þriðja leiknum, kom vel gíraður fyrir þennan leik og skoraði fyrstu 8 stig Hauka en KR-ingar svöruðu jafn harðan og fyrri hálfleikur var einfaldlega stál í stál og aðeins tveir þrist frá Brynjari Þór Björnssyni undir lok hans gaf KR forystuna.

Brynjar og Michael Craion báru sóknarþungan í hálfleiknum fyrir KR og skoruðu 30 stig á meðan Haukur og Brandon Mobley gerðu slíkt hið sama fyrir Hauka, með 27 stig. Varnarleikur beggja liða var harður í þessum fyrri hálfleik og mátti vart sjá á milli en þó höfðu KR alltaf meiri léttleika uppá að bjóða, þá sérstaklega þegar koma að spilamennsku inní teignum, en þar voru Haukamenn ekki nægilega sterkir og gátu oft á tíðum ekkert komist áleiðis gegn vörn KR. Það sem bjargaði Haukum var frábær skotnýting fyrir utan og góður sóknarleikur Mobley og Hauks.

Þrátt fyrir að skora aðeins 10 stig í þriðja hluta tókst Haukum að halda KR í aðeins 11 og því hélst spennan og jafnræðið aðeins inní fjórða hluta. Það kom hinsvegar að því að eitthvað brast hjá heimamönnum því KR-ingar náðu að búa til ágæt forskot, jafnt og þétt þegar inní hlutann var komið.

Þegar svo um fjórar mínútur voru liðnar af lokahlutanum gerðist nokkuð sem í mínum hafði mikil áhrif á leikinn; Brynjar Þór Björnsson fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem þýddi að Haukar hefðu fengið tvö víti og boltann aftur og aðeins 9 stigum undir. Brandon Mobley, í barnslegum ákafa sínum, fór að fagna þessari dómgæslu svo mikið að hann hljóp um völlinn til að hemja sig en það gekk ekki betur en svo að hann hljóp að auglýsingaskilti og sparkaði í það, beint fyrir framan nefið á dómara leiksins, sem dæmdi umsvifalaust tæknivillu og því fengu KR einnig víti og boltann aftur.

Þarna misstu Haukar dampinn sem var svo kórónað þegar Kristinn Jónasson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu stuttu síðar, sem  þýddi að KR náði 10 stiga forskoti með aðeins rúmar 5 mínútur eftir. Þó svo að tíminn hafi í raun verið nægur fyrir Hauka ollu þessu tvö atvik straumhvörfum í leiknum og Haukar höfðu einfaldlega ekki það sóknarbolmagn sem þurfti til þess að sækja þetta tilbaka. Á þessum lokamínútum sýndu KR svo hversu þeir eru megnugir; Pavel Ermolinski og Helgi Már Magnússon settu risastóra þrista og liðið fann loksins þann takt sem það hafði leitað að síðustu tvo leiki.

Haukar áttu gott kvöld, fyrir utan síðustu mínútur leikins. Liðið gerði margt rétt og var aðeins hársbreidd frá því að gefa sér tækifærið til að koma seríunni í oddaleikinn stóra. Þvi miður þá tókst þeim það ekki en eiga hinsvegar heiður skilið fyrir að sína undirrituðum og þjóðinni hversu gott liðið í raun er; þetta gerðu leikmenn og þjálfarar í þessum tveimur síðustu leikjum, án þeirra besta leikmanns, Kára Jónssonar og eiga ekkert nema hrós skilið fyrir baráttu og liðsanda. Haukur Óskarsson og Brandonn Mobley voru mjög góðir í sókninni en það skorti aðeins uppá þar þegar á þurfti. Aðrir áttu skínandi varnarleik lunga leiks en liðsheildin missti dampinn á krítískum augnablikum.

KR-ingar virtustu á tíma ætla að lenda í vandræðum en áttu nægilegt á tankinum til þess að klára dæmið. Liðsheildin small vel saman í seinni hálfleik eftir að hafa höktað í fyrri hálfleiknum. Byrjunarliðið stóð vel fyrir sínu og átti góðan sóknardag, þá sérstaklega í seinni hálfleik. KR eru vel að þessu komnir eftir frábært mót. Helgi Magnússon, Pavel Ermolinski, Brynjar Björnsson og Michael Craion áttu allir góðan dag í sókn og liðsvörnin frábær þegar á þurfti að halda. Munurinn á liðinum í kvöld var að KR hélt haus á meðan Haukar létu trufla sig.

Meira í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

0:00 - KR ER ÍSLANDSMEISTARI þriðja árið í röð. Lokatölur 70:84.

0:23 - Netvesen á ögurstundu en það hefur ekkert breyst. Öruggur sigur KR er í höfn, staðan er 70:84.

3:45 - Haukar hafa glutrað þessu niður í mínum huga eftir þessa villu nafna míns Jónassonar áðan, einfalt! KR komnir með bragðið og Haukar ekki með nein sóknarvopn eftir sem geta snúið þessu við á þeim stutta tíma sem eftir er, ekki gegn jafn góðu og reyndu liði og KR. 61:73

4;56 - Helgi setur þrist eftir að KR fékk vítin og boltann aftur! Hversu dýrt var þetta spaug Hauka? 61:72

5:12 - Kristinn Jónasson fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu líka... Haukar að fara á límingum hérna? Rándýrt!!! 61:69

5:51 - Brynjar fær á sig óíþróttamannslega villu og þessu fangar Mobley ógurlega og hleypur að auglýsingaskilti og sparkar í það!!!!!!!!!!!!!!!!! Þetta er líklega það gáfulegasta sem ég hef séð á vellinum í kvöld! Þvílík skita hjá Mobley, atvinnumanni liðsins!!! 61:68

6:00 - Haukum vantar fleiri sóknarvopn, Mobley getur ekki gert þetta einn. KR liður vel núna, það sést á andlitum leikmanna og skotnýtingu þeirra...

7:05 - Pavel með þrist!!! Haukar verða að halda haus núna, hættulegur tími í hönd fyrir heimamenn núna... 56:67

7:50 - Brynjar setur þrist!!! 54:64

8:00 - Pavel setti þrist! Haukar missa boltann klaufalega... núna er rjóminn eitthvað að skilja sig... Kristinn Jónasson skorar... 54:61

9:24 - Björn Kristjánsson opnar með þrist en Hjálmar svarar fyrir Hauka! 52:56

3.hluti allur! 49:53 - Haukar misstu KR framúr sér sökum lélegs sóknarleiks gegn góðri vörn KR, sem virðist vera að smella saman í þessum hluta. Haukar eru ekki nægilega aggressívir í að keyra á sinn mann og finna þá sem eru opnir. KR-ingar eru með stjórnina í leiknum og eru að spila skynsamlega, finna Craion og spila svo uppúr því. Barningurinn er mikill þessa stundina og þó svo að Haukar séu aðeins 4 stigum á eftir þurfa þeir virkilega að fara að passa sig og muna að halda í það sem kom þeim svona langt í þessum leik, þ.e. að sýna enga linkind og halda sjálfstraustinu, ekki lúffa fyrir sterkum varnarleik KR! 

1:30 - Craion skorar og með 22 og KR stoppa Hauka í hverri sókn sinni! Þetta veit ekki á gott fyrir heimamenn, sem finna núna hvernig KR-vörnin smellir í lás. 43:52

2:55 - Brynjar setur víti sín í og staðan 43:50

2:55 - Netið er að stríða mér hérna í Schenkerhöllinni! Brjálaður! Sýnið þolinmæði! Núna er leikhlé og bæði lið hafa átt í miklu ströggli að skora. Craion fékk villu áðan, sína aðra í leiknum, Emil og Mobley með þrjár villur, eins og Pavel. 43:48

5:00 - Mobley fékk dæmda á sig sóknarvillu, sem mér fannst hreint alveg óskiljanlegur dómur miðað við hvað hefur verið að gerast í leiknum. Hann með 2 villur. 43:48

6:30  - Craion skorar... hann kemst alltaf upp að körfunni þar sem Haukar tvöfalda ekki á hann. Helgi skorar svo í næstu sókn og Haukar taka réttilega leikhlé. 43:48 Craion með 20 stig! Haukur Óskarsson 15 og Mobley 14, eins og Brynjar. 

8:02 - Mobley keyrir á Pavel og villa dæmd, Pavel með 3! 43:42

9:09 - Haukur opnar seinni, líkt og fyrri en nú með tvist! Haukar hafa stoppað tvær fyrst sóknir KR... 41:42

Seinni hálfleikur hafinn!

Hálfleikur - Craion og Brynjar eru báðir sjóðheitir og merkilegt að KR hefur ekki þurft fleiri til í sóknarleiknum. Haukur og Mobley eru við sama heygarðshornið hjá heimamönnum og hafa skorað saman 25 stig og með góðri nýtingu, rétt eins og hitt parið. Varnarleikurinn verður harðari í seinni, þetta vitum við, og það verður fróðlegt að sjá hvernig sóknarmenn liðanna bregðast við þessu en Haukamenn hafa ekki átt mjög greiða leið að körfunni en hafa að sama skapi hitt vel fyrir utan teig. Þetta er í mínum huga áhyggjuefni fyrir Hauka, sem þurfa meiri og stöðugri ógn inní sjálfum teignum því mér hugnast ekki að liðsmenn hitti svona vel í heilan leik. KR-ingar hafa ekki náð að smella saman eins og við þekkjum þá í vörninni og af þeim sökum held ég að sóknin þeirri hafi ekki náð þessum stórhættulegu áhlaupum sínum. Þetta er vörn Hauka að þakka og akkúrat það sem Ívar þjálfari hefur lagt upp með. Leikurinn er langt frá því búinn en Haukar verða að halda einbeitingunni ef þeir ætla sér að halda sama dampi; vörnin má ekki bresta og sóknin verður að finna fleiri boðleiðir að körfunni, ekki sætta sig við langskotin eingöngu þó hitinn hafi verið með þeim í þeim í fyrri hálfleik.

Hálfleikur! 39:42 - Haukar hafa klárlega mætt með báðar kúlurnar sínar og hafa ekki gefið sama færi á sér og í fyrstu tveimur leikjunum; það er allt annað Haukalið að spila þennan fyrri hálfleik og KR-ingar hafa enn ekki áttað sig á varnarleik Hauka, sem er mjög ágengur og líkamlegur. KR hafa hinsvegar Craion og Brynjar, sem eru komnir með 30 stig saman! Og þökk sé tveimur þristum frá Brynjari undir lok hálfleiksins eru KR yfir í leiknum. Það er hinsvegar alveg ljóst að Haukar ætla að selja sig dýrt en spurningin er einfaldlega sú hvort þeir halda út á þessu tempói út leikinn; varnarleikurinn gæti dregið úr sóknaraflinu. Slíkt verður að koma í ljós... handan við hornið. 

55sek - Haukur skorar og fær vítskot! og Pavel sína aðra villu... 39:36

1:11 - Pavel skorar sín fjórðu stig en það liggur ljóst fyrir að KR eru í smá vandræðum með vörn Hauka, sem er ágeng og aggressív. 36:34

2:31 - Haukar eru að mæta hörku KR með sinni eigin hörku og útkoman eru járnabindingar! Mobley skorar aftur og kominn með 12 stig. 34:32

5:00 - Það getur nánast enginn Haukamaður "póstað" sinn mann upp, KR-ingar eru einfaldlega of sterkir á sinn mann og ýta þeim langt út og í léleg skot. 28:27

6:32 - Leikhlé! Á meðan Haukar hitta svona vel fyrir utan teig þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur en ég held að slík hittni sé ekki að sjást í heilan leik og því þurfa þeir að finna sér aðrar leiðir til að komast upp að körfunni. 

7:24 - Mobley sjóðheitur og setur þrist! Kominn með 12 stig! 26:25

8:15 - Mobley skorar 4 í röð! 23:25

9:12 - Craion kominn með 12 stig og sóknaraðgerðir KR virðast mun auðveldari en það sem Haukar eru að framkvæma... þetta er hinsvegar eðlilegt og Haukar verða að finna glufur til að hlaupa völlinn og hleypa leiknum soldið upp til að þreyta lykilmenn KR... 19:25

1.hluti allur! 19:21 - Haukar hafa byrjað leikinn af krafti og gefa ekkert eftir í varnarhörkunni, þó svo að Craion sé þeim erfiður. KR-ingar eru ekki alveg komnir í gang með sína aggressívu vörn en þeir eru samt að halda línunni vel og hleypa litlu framhjá sér upp að körfunni og það er áhyggjuefni fyrir heimamenn, sem munu líklega ekki hitta svona vel fyrir utan í heilan leik. Allt í járnum ennþá og upplitið á heimamönnum til fyrirmyndar! Haukar eru að sýna mér úr hverju þeirra hreðjar eru gerðar. 

1:20 - Hjalmar skorar og Haukar stoppa KR og Emil skorar af harðfylgi! 19:17

2:16 - Craion!!! Haukar eru í vandræðum með hann, sem er kominn með 6 stig strax í upphafi. Mobley svarar hinsvegar með skoti fyrir utan.... 15:15

4:30 - KR-ingar eru að refsa Haukum núna fyrir slælegan varnarleik og þar fer Craion fremstur í flokki. Haukamenn eru hinsvegar að spila fínan sóknarleik og svara jafn harðan... 13:13

6:40 - Haukur setur tvist og kominn með 8 stig! Sá leikmaður sem átti sístan leik síðast hefur svarað sóknarkallinu! 11:9

7:29 - Brynjkar svarar en Haukur setur bara annan! Svakaleg byrjun á þessum leik því Darri setur líka þrist!!! Allt að verða snargeggjað í húsinu! 6:6

8:51 - Haukur Óskarsson setur þrist! 3:0 Akkúrat það sem heimamenn vantar! 

Leikur hafinn!

19:12 - Þarf að gera öllum það ljóst sem þetta lesa að ég er ekki að reyna að sannfæra neinn með minni orðræðu varðandi möguleg úrslit þessa leiks, ég er einfaldlega að tala útfrá eigin sannfæringu en gegn eigin vonum. Ég vona innilega, ekki bara fyrir Haukaaðdáendur, heldur leikmenn liðsins og þá sérstaklega Kára Jónsson, að þeir nái að sýna hvað býr í liðinu og knýja fram oddaleikinn góða. Veturinn í boltanum hefur verið frábær, umfjöllunin vonum framar og áhuginn mjög mikill, sem yrði kórónaður með viðeigandi hætti ef Haukar myndu vinna hérna í kvöld. Betra liðið vinnur þessa seríu en við sem elskum leikinn viljum vissulega fá oddann því hann er akkúrat það sem gefur þessu svo mikið gildi. Líf og fjör á eftir að Ásvöllum og vonum að leikurinn endurspegli frábæran vetur, burtséð frá hvaða lið sigrar hérna í kvöld... 

18:56 - Það sem KR verður að passa í þessum leik er að missa ekki einbeitinguna og takmarka klaufaleg mistök, sem einkenndu t.a.m. síðustu mínútur þriðja leiks. Pavel og Darri verða að komast inní sóknarleikinn og til þess verða KR að vera duglegir að finna Craion, sem getur bæði matað félaga sína og skorað sjálfur. Varnarleikur KR þarf að finna sig snemma svo skyttur Hauka komist ekki í stuð, ásamt því að passa að sömu skyttur geti ekki komist framhjá varnarmanni sínum. Allt eru þetta þekktar stærðir en alveg ljóst að KR þarf að finna aftur sinn sóknartakt, sem gerist oftast í kjölfarið á því að vörnin skellir í lás. 

Haukar þurfa einfaldlega að gera mun meira en KR til að vinna í kvöld: varnarleikurinn verður að vera á pari við síðasta leik að lágmarki en sóknin verður hinsvegar að vera mun beittari en oft áður og til þess þurfa menn eins og Haukur Óskarsson, Emil Barja og Brandon Mobley að snarhitna og vera stöðug ógn. Hjálmar Stefánsson og Kristinn Marínósson verða að koma með geggjaða vörn á sína menn og Finnur Atli þarf að standa vaktina á báðum endum vallarins. Sóknarleikur liðsins má helst ekki klikka því KR má ekki fá of auðvelt kvöld í sínum varnarleik. Allt verður í raun að smella, í spöðum, fyrir Haukar og ekkert má útaf bregða. Haukar verða að passa áhlaup KR og hleypa þeim ekki í bílstjórasætið, svo þeir séu ekki að elta KR allan leikinn; halda KR hjá sér og freista þess að keyra upp hraðann í stuttum og snörpum áhlaupum.

18:47 - Velkomin öll sömul! Fjórði leikur að fara í gang og ljóst að margir eru spenntir, þá sérstaklega þeir sem horfa til Hauka að sigra. Ég sagði ítrekað fyrir síðasta leik að ég teldi næsta ómögulegt fyrir Hauka að sigra þá en hafði þó orð á því að þriðji leikur liða í úrslitum sem þessum væri mjög hættulegur fyrir liðið sem leiðir 2:0. Þrátt fyrir þennan varnagla viðurkenni ég að sigur Hauka kom mér mjög á óvart, svo ekki sé meira sagt. Hinsvegar, þá er ég persónulega enn vissari í minni spá um kvöldið og held að KR muni sigra hérna í kvöld og hef á því enga varnagla eins og á síðasta mánudag. Haukar þurfa einfaldlega á sínum besta leik þetta tímabilið og það án þeirra besta leikmanns, Kára Jónssonar! Slíkt er tölfræðilega þunnt í besta falli og nánast útilokað í versta falli. Haukamenn gerðu vel síðast en fólk verður líka að muna að KR-ingarnir Darri Hilmarsson og Pavel Ermolinski áttu afleitan dag og verra kvöld. Það eru litlar líkur á að Haukum takist að endurtaka sinn leik, hvað þá láta KR endurtaka sinn... og svo verður að muna að sá leikur fór í framlengingu og vannst naumt. Munurinn á liðunum er töluverður og til þess að Haukar nái því kraftaverki sem ég held að þurfi til þess að liðið leggi KR í kvöld þarf allt að smella, ekki bara vörnin, heldur verður sóknarleikur liðsins að spila eins og hann hefur aðeins gert á tyllidögum! Haukar eiga möguleika en hann er að mínu viti svo naumur að ég myndi aldrei þora að setja pening á Hauka í kvöld þó svo að minn innri maður þrái óendanlega að fá oddaleikinn í seríuna. Við sjáum hinsvegar hvað setur og þó svo að ég sé svona handviss um útkomuna eru margir í liði Hauka sem hafa ennþá trú á verkefninu og það eru þeir sem skipta máli í þessu þar sem þeir spinna þann örlagavef sem um ræðir, ekki ég eða aðrir. 

Brandon Mobley úr Haukum reynir að komast framhjá Darra Hilmarssyni …
Brandon Mobley úr Haukum reynir að komast framhjá Darra Hilmarssyni úr KR í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert