Sýning og NBA-met hjá Cleveland

Dahntay Jones setur nýja NBA-metið með því að skora 24. …
Dahntay Jones setur nýja NBA-metið með því að skora 24. þriggja stiga körfu Cleveland í leiknum í nótt. AFP

Leikmenn Cleveland Cavaliers fóru gjörsamlega á kostum í nótt þegar þeir unnu stórsigur á Atlanta Hawks, 123:98, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar NBA í körfuknattleik á heimavelli sínum.

Lið Cleveland gerði 75 stig úr 3ja stiga skotum, leikmenn liðsins hittu úr 25 af 45 slíkum tilraunum og tíu þeirra skoruðu fyrir utan 3ja stiga línuna. Þetta er nýtt met en ekkert lið hefur áður náð þessum fjölda af 3ja stiga körfum, hvort sem það er í deildinni eða úrslitakeppninni.

„Þetta var sérstakt kvöld fyrir okkur alla. Í þessari deild hafa spilað svo mörg frábær lið, svo margir frábærir leikmenn og frábærar skyttur, þannig að það er einstakt að hafa náð að setja svona met," sagði LeBron James við fréttamenn en Cleveland er komið í 2:0 í einvígi liðanna og þriðji leikurinn fer fram í Atlanta annað kvöld.

James skoraði sjálfur fjórar þriggja stiga körfur og 27 stig alls en J.R. Smith lét mest að sér kveða í langskotunum og skoraði sjö slíkar, sex þeirra í fyrri hálfleiknum þegar Cleveland stakk gjörsamlega af en staðan í hálfleik var 74:38. Ótrúlegar tölur í undanúrslitum.

„Ef við sleppum þriggja stiga körfunum þeirra er þetta hnífjafn leikur!" skrifuðu Atlanta-menn á Twitter í hálfleik. Paul Millsap skoraði 16 stig fyrir Atlanta og Jeff Teague 14.

Orlando Magic (2009) og Houston Rockets (2013) áttu fyrra metið sem var 23 þriggja stiga körfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert