Gæfi tíu svona fyrir Íslandsmeistarabikarinn

Helena Sverrisdóttir með verðlaunagrip sinn ásamt Hauki Helga Pálssyni sem …
Helena Sverrisdóttir með verðlaunagrip sinn ásamt Hauki Helga Pálssyni sem var valinn bestur hjá körlunum. mbl.is/Ófeigur

„Nafnið er þarna á bikarnum frá því fyrir nokkrum árum síðan, og það er gaman að fá hann aftur,“ sagði Helena Sverrisdóttir glöð í bragði eftir að hafa verið útnefnd besti leikmaður Dominos-deildar kvenna í körfubolta á nýafstaðinni leiktíð.

Helena sneri heim úr atvinnumennsku síðasta sumar og átti frábæran vetur með Haukum sem urðu deildarmeistarar en töpuðu fyrir Snæfelli í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er alltaf gott að fá viðurkenningu fyrir það sem maður er búinn að leggja inn. En maður er orðinn það gamall að svona bikarar skipta mann ekki eins miklu máli og áður. Ég myndi skipta þessum út tíu sinnum ef ég fengi Íslandsmeistarabikarinn núna í staðinn,“ sagði Helena, greinilega enn með hugann að einhverju leyti við úrslitaeinvígið við Snæfell:

Við vorum aldrei „underdogs“

„Auðvitað er silfrið alltaf fúlt, en við erum með ungt og óreynt lið og það hefði verið algjör bónus að taka titilinn. Einhvern veginn vorum við aldrei „underdogs“ í vetur en þegar maður skoðar þetta almennilega þá skil ég ekki alveg af hverju. Við vorum með stelpur undir tvítugu í byrjunarliðinu og allar stelpurnar á bekknum í unglingaflokki, en þegar við horfum á Snæfell þá eru þar þrjár stelpur úr A-landsliðinu, besti Kaninn og hefðin af því að hafa unnið síðustu tvö ár. En auðvitað svíður það alltaf að tapa í úrslitum,“ sagði Helena.

Viðtalið heldur áfram fyrir neðan myndina.

Það reyndist öllum liðum erfitt að stöðva Helenu í vetur.
Það reyndist öllum liðum erfitt að stöðva Helenu í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

 

Hélt að þetta myndi aldrei gerast í körfuboltaleik kvenna

Helena var, auk þess að vera aðalstjarna Haukaliðsins innan vallar, aðstoðarþjálfari liðsins í vetur og hún er stolt af frammistöðu þess:

„Mér fannst liðið gera mjög vel. Það var mikið í gangi hjá okkur eftir áramót þegar við reyndum að taka inn Kana sem gekk svo ekki upp. Svo voru þjálfaraskipti og fleira, þannig að inn á milli var þetta erfitt. Ég er heilt yfir rosalega stolt af stelpunum og held að það hafi verið lagt mikið inn á reynslubankann í vetur. Það er gaman að það voru stelpur að fá tækifæri sem hafa ekki verið á svona stóru sviði áður, og svo endaði þetta í oddaleik með fulla Ásvelli sem maður hélt að myndi aldrei gerast í kvennakörfuboltaleik. Það var algjör hápunktur,“ sagði Helena, sem kann vel við sig í þjálfuninni og horfir til þess að starfa áfram sem þjálfari þegar leikmannaferlinum lýkur.

Ætlar að verða þjálfari

„Ég þekki Ingvar [Þór Guðjónsson, annan þjálfara Hauka] vel og við höfum verið að vinna saman áður. Auðvitað er ég meira bara leikmaður í leikjunum sjálfum, þó ég sé líka leiðtogi því ég sé hlutina kannski öðruvísi inni á vellinum en á hliðarlínunni, en þetta er bara gaman. Maður er orðinn aðeins eldri og það er skemmtilegt að taka smám saman þetta skref í að verða þjálfari, eins og ég sé fyrir mér að gera eftir að ég hætti sem leikmaður,“ sagði Helena, sem er einnig að þjálfa U16-landslið kvenna með Ingvari.

Helena Sverrisdóttir fór fyrir íslenska landsliðinu í fræknum sigri á …
Helena Sverrisdóttir fór fyrir íslenska landsliðinu í fræknum sigri á Ungverjum í febrúar. mbl.is/Styrmir Kári

Helena gæti hæglega snúið aftur í atvinnumennsku hefði hún áhuga á því en segir að allt útlit sé fyrir að hún verði áfram hér á landi enn um sinn:

„Umboðsmaðurinn hefur reglulega samband og tékkar á því hvað ég vilji gera, en eins og staðan er akkúrat núna þá er ég bara að reyna að festa rætur á Íslandi. Mér líður eins og ég sé nýkomin heim, þó það sé liðið heilt ár, og ég sé ekki fyrir mér að fara út en ég ætla ekkert að loka á það í framtíðinni,“ sagði Helena.

Fæ ennþá gæsahúð vegna Ungverjaleiksins

Veturinn var ekki bara góður hjá henni með Haukum því íslenska landsliðið vann sinn besta sigur í sögunni þegar það lagði Ungverjaland að velli í undankeppni EM í febrúar, þar sem Helena skoraði 29 stig og tók 16 fráköst. Ísland hafði tapaði gegn Ungverjum á útivelli og Slóvakíu á heimavelli í nóvember, og gegn Portúgal á útivelli í febrúar.

„Við vissum að það yrði svo erfitt að fara í undankeppnina án þeirra sem eru í bandarísku háskólunum. Við vorum með þrjár úr byrjunarliðinu þar, og samt að fara í baráttu við bestu þjóðir Evrópu. Þetta gekk ekki nógu vel í haust, en í febrúar gegn Portúgal og svo gegn Ungverjum hérna heima þá var þetta annað. Maður fær ennþá gæsahúð við að hugsa um sigurinn á Ungverjum. Við vitum að við erum að styrkjast og það eru líka fleiri stelpur að gera tilkall til sætis í landsliðinu, sem skiptir miklu máli. Þessi samkeppni var ekkert svona fyrir nokkrum árum,“ sagði Helena áður en hún hélt út í sumarið með fleiri af þeim fjölmörgu verðlaunagripum sem hún hefur unnið sér inn á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert