Skulda mér mjög mikinn pening

Hlynur Bæringsson í leik gegn Serbíu á EM.
Hlynur Bæringsson í leik gegn Serbíu á EM. AFP

„Þetta er mjög leiðinlegt og erfitt á margan hátt,“ sagði Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, eftir að ljóst varð í dag að sænska úrvalsdeildarfélagið Sundsvall Dragons væri orðið gjaldþrota.

„Ég hef vitað það í svolítinn tíma að þetta væri möguleiki, en ég fékk þetta endanlega staðfest í morgun,“ sagði Hlynur sem hefur verið hjá Sundsvall síðan hann yfirgaf Snæfell sem Íslands- og bikarmeistari árið 2010. Hann skrifaði undir nýjan samning til fimm ára við Sundsvall síðasta sumar en nú er ljóst að hann mun finna sér nýtt lið:

„Já, sænska 3. deildin heillar ekki mikið,“ sagði Hlynur við Mbl.is. „Ég hef ekki hugmynd um hvað tekur við. Ég ætla að taka mér nokkra daga í að melta þetta. Ég á mikið [innsk.: af launagreiðslum] útistandandi, og þarf að reyna að bjarga því sem bjargað verður þar. Það er ekkert skemmtilegt að fara í gang núna. Þeir skulda mér mjög mikinn pening,“ sagði Hlynur sem er í öflugu verkalýðsfélagi sem mun aðstoða hann við að fá sem mest af því sem honum ber.

Kem alltaf til með að skíttapa á þessu

„Ég á góðum mönnum að þakka það að hafa farið í þetta verkalýðsfélag á sínum tíma, en ég kem alltaf til með að skíttapa á þessu máli. Maður fær aldrei allt. Það er bara spurning hversu mikið höggið verður,“ sagði Hlynur. Hann segir gjaldþrot Sundsvall sorglegt á margan hátt:

Hlynur Bæringsson varð Íslands- og bikarmeistari með Snæfelli árið 2010.
Hlynur Bæringsson varð Íslands- og bikarmeistari með Snæfelli árið 2010. mbl.is/Golli

„Hér er fullt af góðu fólki sem þarf að líða fyrir þetta. Hér eru yngri krakkar að spila og þetta hefur áhrif á þau, körfuboltann í bænum og í Svíþjóð. Þetta er mjög sorglegt, sérstaklega þar sem það eru ekki margir sem bera ábyrgð á þessu. Það eru bara örfáir menn, sem eru kannski ekki merkilegir karakterar, sem bera ábyrgð,“ sagði Hlynur.

Útilokar ekki að spila á Íslandi

Margir velta eflaust vöngum yfir því hvort Hlynur, sem verður 34 ára í sumar, hafi áhuga á að snúa heim og spila í Dominos-deildinni, og hann útilokar það ekki. Hins vegar er ljóst að hann gæti auðveldlega komist að hjá öðru úrvalsdeildarfélagi í Svíþjóð:

„Ég verð að taka mér tíma í það að skoða hvað maður gerir. Þetta er svolítið stór ákvörðun. Ég veit að ég hef úr töluverðu að velja en ég vil ekkert hugsa um það núna. Þetta er sjokk, þó að þetta hafi verið viðbúið, og ég vil melta þetta,“ sagði Hlynur, og bætti við:

„Eftir þessi ár hérna þá vil ég bara leita leiða til að seinni ár ferilsins verði jákvæð og skemmtileg. Þetta er búið að vera helvítis hark hérna í vetur. Hvort ég spila næstu leiktíð heima, í Svíþjóð eða annars staðar verður bara að koma í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert