Ekkert bann fyrir pungsparkið

Draymond Green er klár til leiks í kvöld.
Draymond Green er klár til leiks í kvöld. AFP

Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik, slapp heldur betur með skrekkinn í fyrrinótt eftir að hann sparkaði í punginn á Steven Adams, leikmanni Oklahoma City Thunder, í 3 leik liðanna í úrslitarimmu Vesturdeildarinnar.

Green fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir að sparka hnitmiðað í fjölskyldudjásn Nýsjálendingsins Steven Adams í skottilraun. Draymond var þó ekki rekinn af velli fyrir brotið, en brottvísun hefði sennilega hentað Golden State betur því kraftframherjinn knái var arfaslakur í leiknum, með 6 stig þar sem hann hitti einungis úr einu skoti af níu.

NBA-deildin ákvað að endurmeta brotið eftir leikinn, þá sérstaklega hvort setja ætti hinn 26 ára Green í eins leiks bann eins og niðurstaðan var í eðlislíku máli Dahntay Jones, leikmanns Cleveland Cavaliers, í leik liðsins gegn Toronto Raptors. Jones gaf þá Bismack Biyombo, leikmanni Toronto, pungskot. 

Eftir endurmat taldi deildin að ekki væri unnt að setja Draymond Green í bann, en að unnt hefði verið að dæma aðra tæknivillu og reka Green af velli. Því var Green sektaður fyrir brotið. Niðurstaðan var umdeild og var íþróttafréttamaðurinn Bill Simmons einna fyrstur til að lýsa yfir óánægju sinni, en hann sagðist vera spenntur fyrir því að leikmenn NBA-deildarinnar megi nú gefa hvor öðrum pungskot í leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert