Meistararnir að falla úr leik?

Russell Westbrook á ferðinni gegn Stephen Curry í nótt. Westbrook …
Russell Westbrook á ferðinni gegn Stephen Curry í nótt. Westbrook var frábær en Curry nær óþekkjanlegur. AFP

Oklahoma City Thunder er einum sigri frá því að slá út meistara Golden State Warriors eftir öruggan sigur í nótt, 118:94, í undanúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta.

Staðan í einvíginu er 3:1 Oklahoma í vil en liðin mætast næst á heimavelli Golden State aðfaranótt föstudags, kl. 2 að íslenskum tíma.

Russell Westbrook átti magnaðan leik fyrir Oklahoma í nótt en hann skoraði 36 stig, tók 11 fráköst og átti 11 stoðsendingar. Sambærilegar tölur hafa ekki sést hjá leikmanni gegn ríkjandi meisturum síðan hjá Charles Barkley árið 1993.

„Við verðum að svara fyrir okkur,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, sem er nú með bakið upp við vegginn fræga. „Góðu fréttirnar eru þær að nú förum við heim. Við spilum vel á heimavelli. Núna þurfum við að ná sigri þar og með því setjum við pressu á þá, við skulum svo sjá hvað gerist,“ sagði Kerr.

Kerr þvertók fyrir að Stephen Curry væri meiddur, þó að vissulega væri hann að snúa til baka eftir hnémeiðsli. Curry var nær óþekkjanlegur, hitti skelfilega úr skotunum sínum miðað við sína getu. Hann setti niður 6 af 20 skotum og skoraði 19 stig, en Klay Thompson skoraði 26.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert