Cleveland rúllaði yfir Toronto

LeBron James fagnar sigrinum á Toronto í nótt.
LeBron James fagnar sigrinum á Toronto í nótt. AFP

LeBron James gat hvílt sig á bekknum allan fjórða leikhlutann þegar Cleveland Cavaliers unnu Toronto Raptors af miklu öryggi í nótt, 116:78, og komust í 3:2 í undanúrslitaeinvígi liðanna í NBA-deildinni í körfubolta.

Cleveland getur nú tryggt sér sigur í einvíginu, og sæti í úrslitum deildarinnar, með sigri í næsta leik liðanna sem er í Toronto aðra nótt kl. 24.30 að íslenskum tíma.

Cleveland komst í 37:19 í fyrsta leikhluta og hélt áfram að vaða yfir gesti sína í öðrum leikhluta, en staðan í hálfleik var 65:34 og úrslitin í raun ráðin.

James skoraði 23 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en Kevin Love var stigahæstur hjá Cleveland með 25 stig. Liðið getur nú fagnað sigri í austurhluta NBA-deildarinnar með því að vinna Toronto aðra nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert