Golden State hélt sér á lífi

Stephen Curry fagnar með mönnum á bekknum í sigrinum á …
Stephen Curry fagnar með mönnum á bekknum í sigrinum á Oklahoma í nótt. AFP

Meistarar Golden State Warriors hafa ekki sagt sitt síðasta í NBA-deildinni í körfubolta á þessari leiktíð en þeir eru nú 3:2 undir í einvígi sínu við Oklahoma City Thunder í úrslitum vesturdeildarinnar.

Golden State vann leik liðanna á heimavelli í nótt, 120:111, eftir að hafa verið 58:50 yfir í hálfleik og 81:77 yfir fyrir lokafjórðunginn. Meistararnir léku af öryggi í lokin og hleyptu Oklahoma ekki of nærri sér.

„Við ætlum ekki heim! Við erum ekki á leiðinni heim!“ öskraði Stephen Curry, sem skoraði 31 stig fyrir Golden State. Næsti leikur liðanna er einmitt í Oklahoma annað kvöld, eða kl. 2 að íslenskum tíma, og þarf Golden State að vinna þann leik til að fá oddaleik á heimavelli.

Curry var langt frá sínu besta í síðasta leik og margir hafa efast um að hann hafi jafnað sig nægilega vel af meiðslum, en þessi verðmætasti leikmaður deildarinnar sýndi sitt rétta andlit í nótt:

„Mér fannst hann vera svona 91%,“ sagði Steve Kerr þjálfari, léttur í bragði. „Hann átti mjög góðan leik. Það er það eina sem ég get sagt. Hann mun berjast á hverju kvöldi. Hann átti frábært kvöld og hjálpaði okkur að klára dæmið,“ sagði Kerr.

Klay Thompson var einnig atkvæðamikill og skoraði 27 stig fyrir Golden State en Kevin Durant setti niður 40 stig fyrir Oklhaoma og Russell Westbrook skoraði 31 stig, átti 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert