Valencia byrjar úrslitakeppnina vel

Jón Arnór Stefánsson og félagar unnu í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson og félagar unnu í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í spænska körfuboltaliðinu Valencia sigruðu Unicaja Málaga, 79:75, í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum um spænska meistaratitilinn.

Íslenski landsliðsmaðurinn hafði fremur hægt um sig í leiknum í kvöld. Á þeim rúmu 15 mínútum sem hann var inni á vellinum skoraði hann þrjú stig og tók eitt frákast.

Gestirnir voru með tveggja stiga forystu að loknum fyrri hálfleik, 37:35. Heimamenn léku betur í síðari hálfleik, voru sterkari á endasprettinum og tryggðu sér sætan sigur.

Valencia hafnaði í þriðja sæti í deildinni og leikur þar af leiðandi gegn Málaga sem lenti í sjötta sæti. Annar leikur liðanna í einvíginu fer fram á heimavelli Málaga á sunnudaginn en með sigri í þeim leik kemst Valencia í undanúrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert