Cleveland er komið í úrslit

J.R. Smith og LeBron James fagna sigri Cleveland í leikslok …
J.R. Smith og LeBron James fagna sigri Cleveland í leikslok í nótt. AFP

Cleveland Cavaliers tryggði sér sigur í Austurdeild NBA í körfuknattleik í nótt með afar sannfærandi útisigri á Toronto Raptors, 113:87, og vann þar með einvígi liðanna 4:2.

Cleveland er þá komið í úrslitaeinvígi NBA annað árið í röð en i fyrra beið liðið lægri hlut fyrir Golden State Warriors. Í Vesturdeildinni er Oklahoma City 3:2 yfir gegn Golden State en sjötti leikur þeirra fer fram næstu nótt.

Cleveland-borg hefur mátt bíða í 52 ár eftir meistaratitli í einhverri stóru íþróttanna í Bandaríkjunum, eða síðan Cleveland Browns vann NFL-meistaratitilinn árið 1964.

„Borgin okkar verðskuldar titil og stuðningsmenn okkar verðskulda titil. En þetta gefur okkur engan rétt á honum. Við verðum að fara og vinna hann. Við verðum að fara og sýna okkur og sanna," sagði LeBron James eftir leikinn í nótt en hann fæddist og ólst upp í nágrenni borgarinnar. James er kominn í úrslit deildarinnar sjötta árið í röð en hann lék fjórum sinnum til úrslita með Miami áður en hann sneri aftur á heimaslóðirnar fyrir tveimur árum.

Hann skoraði 33 stig fyrir Cleveland, Kyrie Irving 30 og Kevin Love skoraði 20 stig og tók 12 fráköst. 

Kyle Lowry skoraði 35 stig fyrir Toronto og DeMar DeRozan 20 en Kanadaliðið hefur aldrei áður náð jafnlangt í úrslitakeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert