Golden State knúði fram oddaleik

Stephen Curry og Spánverjinn Serge Ibaka í leiknum í nótt.
Stephen Curry og Spánverjinn Serge Ibaka í leiknum í nótt. AFP

NBA-meistararnir Golden State Warriors eiga enn möguleika á því að verja titil sinn eftir að hafa unnið tvo leiki í röð gegn Oklahoma City Thunder í úrslitum Vesturdeildar NBA-körfuboltans. 

Golden State hafði betur í Oklahoma í nótt 108:101 og á heimaleik í oddaleiknum en Golden State fær heimaleikjaréttinn fyrir að hafa hafnað í efsta sæti í deildakeppninni. 

Oklahoma var komið 3:1 yfir í rimmunni en Golden State hefur nú unnið tvo leiki í röð. Níu dæmi eru um að lið hafi snúið 1:3 stöðu í 4:3 sigur í sögu úrslitakeppni NBA-deildarinnar. 

Klay Thompson var stigahæstur á vellinum með 41 stig og Stephen Curry var með 31 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Kevin Durant var með 29 stig fyrir Oklahoma og Russell Westbrook 28 en þeir hittu hins vegar ekki sérlega vel. Durant setti niður 10 af 31 skoti og Westbrook 10 af 27. 

Cleveland Cavaliers er komið í úrslit eftir sigur í Austurdeildinni og bíður nú eftir því að Golden State og Oklahoma útkljái sín mál. 

„Við höfum fulla trú á þessu og höfum hjarta. Spennan er augljóslega mikil en við eigum ennþá eftir að klára dæmið,“ sagði Stephen Curry á blaðamannafundi að leiknum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert