Silfur eftir framlengingu

Kári Jónsson og Krivokapic í baráttunni í úrslitaleik Íslands og …
Kári Jónsson og Krivokapic í baráttunni í úrslitaleik Íslands og Svartfjallalands í kvöld. Ljósmynd/fiba.com

Ísland fær silfurverðlaunin í B-deild Evrópukeppni karla U20 ára í körfuknattleik eftir afar nauman ósigur gegn Svartfellingum í framlengdum úrslitaleik sem var að ljúka í Grikklandi, 78:76.

Bæði liðin höfðu þegar tryggt sér sæti í A-deildinni ásamt Grikkjum sem unnu Króata í leik um þriðja sætið fyrr í dag.

Sigurganga Íslands var þar með stöðvuð en eftir ósigur í fyrsta leik mótsins höfðu strákarnir unnið fimm leiki í röð og lagt þar að velli Eista, Rússa, Pólverja, Georgíumenn og Grikki.

Svartfellingar voru lengst af með undirtökin. Þeir voru yfir, 25:14, eftir fyrsta leikhluta, 41:29 í hálfleik og 59:45 eftir þriðja leikhluta. Sigur þeirra blasti við fimm mínútum fyrir leikslok þegar staðan var 67:51 en íslenska liðið átti ótrúlegan endasprett og jafnaði metin úr 71:62 í 71:71 með þremur þriggja stiga körfum sem Kristinn Pálsson (tvær) og Kári Jónsson skoruðu. Kristinn jafnaði þegar 18 sekúndur voru eftir.

Í framlengingunni var Svartfjallaland áfram yfir og hafði að lokum sigur, 78:76, eftir mikla baráttu þar sem íslensku strákarnir áttu lokaskotið í blálokin en það geigaði.

Jón Axel Guðmundsson átti enn einn stórleikinn en hann skoraði 23 stig og tók 13 fráköst. Pétur Rúnar Birgisson skoraði 17 stig, Kári Jónsson 14 og Kristinn Pálsson 10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert