Hreinn úrslitaleikur fram undan

Liðsmynd af íslenska liðinu.
Liðsmynd af íslenska liðinu. Ljósmynd/kki.is

Eftir 88:72 tap íslenska kvennalandsliðsins í körfuknattleik skipuðu leikmönnum 18 ára og yngri gegn Bosníu-Hersegóvínu í B-deild Evrópumótsins í Sarajevo í dag er ljóst að leikur íslenska liðsins gegn Finnlandi á morgun verður hreinn úrslitaleikur um sæti í átta liða úrslitum mótsins. 

Emelía Ósk Gunnarsdóttir, leikmaður Keflavíkur var stigahæst í íslenska liðinu með 21 stig, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir sem nýverið gekk til liðs við Val kom næst með 12 stig og Sylvía Rún Hálfdánardóttir, leikmaður Hauka, þar á eftir með 11 stig. 

Ísland hafði fyrir leikinn í dag haft betur gegn Portúgal og Rúmeníu og borið sigur úr býtum í jafnmörgum leikjum og Finnland. Bosnía-Hersegóvína skaust upp á topp riðilsins í dag með sigrinum, en liðið er með sex stig. Þar á eftir koma Íslendingar, Finnar og Portúgalar með fimm stig. 

Portúgal hefur þegar leikið alla leiki sína og á því ekki möguleika á að komast í átta liða úrslitin. Það verður því sigurliðið úr leik Íslands og Finnlands á morgun sem fylgir Bosníu-Hersegóvínu í átta liða úrslitin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert