Spilað verður í Smáranum

Íslenska landsliðið býr sig undir undankeppni EM sem er leikin …
Íslenska landsliðið býr sig undir undankeppni EM sem er leikin í haust. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Fyrir liggur hvaða leiki A-landslið karla í körfubolta spilar til að undirbúa sig fyrir undankeppni EM í körfubolta haustið 2017. Í september ræðst hvort landsliðinu takist að endurtaka leikinn og komast aftur í lokakeppnina eins og í Berlín í fyrra en undankeppnin verður á tæpum þremur vikum.

Íslenska landsliðið kemur til með að spila þrjá vináttulandsleiki áður en að undankeppninni kemur. Fara þeir allir fram erlendis. Liðið fer á fjögurra liða mót í Austurríki. Verður þar leikið gegn heimamönnum, Pólverjum og Slóvenum dagana 11. - 15. ágúst. Pólland og Slóvenía voru í síðustu lokakeppni EM og því ætti íslenska liðið að fá hörkuleiki á mótinu.

Kanadíski landsliðsþjálfarinn, Craig Pedersen, tilkynnti á dögunum um æfingahóp sinn sem nú telur 41 leikmann. Gera má ráð fyrir að 16-18 leikmenn fari á æfingamótið í Austurríki og áður en að því kemur verði búið að fækka einu sinni í æfingahópnum.

Landsliðið spilar því engan vináttulandsleik hér heima en byrjar undankeppnina á heimavelli hinn 31. ágúst. Þá tekur Ísland á móti Sviss en auk þessara þjóða eru Belgía og Kýpur í riðlinum. Að þessu sinni hefur hlutunum verið komið þannig fyrir að landsliðið nær að spila alla þrjá útileikina í keppninni í sama ferðalaginu og kemur ekki heim á milli. Fyrst verður leikið á Kýpur, þá í Belgíu og loks í Sviss. Ísland lýkur því undankeppninni á tveimur heimaleikjum gegn Kýpur og Belgíu. Síðasti leikurinn verður 17. september gegn Belgum sem komust í 16-liða úrslit í síðustu lokakeppni og unnu til að mynda firnasterkt lið Litháen.

Athygli vekur að landsliðið mun spila alla þrjá leikina í Smáranum í Kópavogi. Spurður um þetta sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, að Laugardalshöllin hafi einfaldlega ekki verið á lausu fyrir alla leikina vegna sýningahalds. „Laugardalshöllin er að sjálfsögðu óskastaður en innanhússíþróttagreinarnar geta ekki treyst á hana sem þjóðarleikvang. Við erum Blikum þakklát fyrir þeirra viðbrögð í málinu,“ sagði Hannes við Morgunblaðið. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert