Íslenska liðið í undanúrslit

Elfa Falsdóttir í leik Íslands gegn Finnlandi í riðlakeppninni.
Elfa Falsdóttir í leik Íslands gegn Finnlandi í riðlakeppninni. Ljósmynd/kki.is

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik skipað 18 ára leikmönnum og yngri komst í dag í undanúrslit í B-deild Evrópumótsins eftir 85:68 sigur gegn Hvíta-Rússlandi í Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu í átta liða úrslitum mótsins í dag.

Emilía Ósk Gunnarsdóttir, leikmaður Keflavíkur, var stigahæst hjá íslenska liðinu með 20 stig. Sylvía Rún Hálfdánardóttir, leikmaður deildarmeistara Hauka, kom næst með 15 stig, en hún tók þar að auki níu fráköst og stal sex boltum. Thelma Dís Ágústsdóttir, leikmaður Keflavíkur, kom þar á eftir með 14 stig. 

Ísland mætir Grikklandi í undanúrslitum mótsins á morgun, en liðið sem ber sigur úr býtum í þeim leik tryggir sér sæti í A-deild næst þegar mótið verður haldið. Grikkland lagði Þýskaland að velli í átta liða úrslitunum í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert