Tindastóll bætir við sig leikmanni

Austin Magnús Bracey eftir að hafa skrifað undir samning við …
Austin Magnús Bracey eftir að hafa skrifað undir samning við Tindastól. Ljósmynd/karfan.is

Tindastóll sem leikur í Dominos-deild karla í körfuknattleik, hefur samið við Austin Magnús Bracey um að leika með liðinu á næsta tímabili. Austin gengur til liðs við Tindastól frá Snæfelli. Það er karfan.is sem greinir frá þessu.   

Austin hefur spilað á Íslandi síðan árið 2012 og er íslenskur ríkisborgari en hann var valinn í úrtakshóp fyrir landsliðsæfingar í sumar. Auk þess að leika með Snæfelli hefur Austin leikið með Val og Hetti hér á landi, en hefur nú ákveðið að taka slaginn með Tindastól í Dominos-deildinni.

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Tindastóls síðan í vor, en liðið hafnaði í sjötta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og Haukar slógu þá síðan út í undanúrslitum deildarinnar.

Tindastóll hefur ásamt Austin fengið til liðs við sig Björgvin Hafþór Ríkharðsson frá ÍR, en misst á móti Darrell Flake í Skallagrím og Darrel Lewis og Ingva Rafn Ingvarsson í Þór, Akureyri.

Snæfell hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku í sumar, en liðið hefur misst þrjá leikmenn úr herbúðum sínum. Sigurður Þorvaldsson fór í KR og Stefán Karel Torfason gekk til liðs við  ÍR. Auk þess var tilkynnt í vikunni að Óli Ragnar Alexandersson myndi ekki leika með liðinu á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert