Ísland leikur um brons eftir naumt tap

Thelma Dís Ágústsdóttir var atkvæðamikil í kvöld.
Thelma Dís Ágústsdóttir var atkvæðamikil í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stúlkurnar í U18 ára landsliði Íslands í körfuknattleik spila á morgun um bronsverðlaunin í B-deild Evrópumótsins og það er jafnframt hreinn úrslitaleikur um sæti í A-deildinni.

Íslenska liðið tapaði naumlega fyrir Grikkjum, 61:65, í undanúrslitum mótsins í Sarajevo í Bosníu í kvöld. Það þýðir að íslensku stúlkurnar mæta gestgjöfunum, liði Bosníu, í leiknum um bronsið en Grikkland og Svíþjóð leika til úrslita á mótinu og hafa tryggt sér A-deildarsæti.

Leikurinn við Grikki var hörkuspennandi og Ísland var yfir eftir fyrsta leikhluta, 19:11, og í hálfleik, 29:28. Staðan var 46:46 eftir þriðja leikhluta en Grikkir tryggðu sér sigurinn í lokin.

Sylvía Rún Hálfdanardóttir átti enn stórleik en hún skoraði 20 stig og tók 14 fráköst. Dýrfinna Arnardóttir skoraði 14 stig og Thelma Dís Ágústsdóttir 11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert