Horfir sáttur um öxl

„Hér í Vesturbænum hitti ég fyrir vini mína og fjölskyldu,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning við KR. Jón Arnór snýr því aftur á heimaslóðir eftir farsælan feril sem atvinnumaður.

Sjá: Jón Arnór samdi til tveggja ára

Jón Arnór tilkynnti í gær að hann myndi snúa aftur heim og var vesturbærinn talinn líklegasti áfangastaðurinn. En hvað skipti mestu í þeirri ákvörðun?

„Ég fór að hugsa um gömlu góðu dagana þegar ég var að byrja í þessu, og þá var ég alltaf í röndóttu. Það er mikil sigurhefð hérna, háleit markmið og metnaðarfullt starf í alla staði. Þetta er klárlega stærsti klúbburinn á landinu og hefur verið síðustu ár,“ segir Jón Arnór.

Hann hefur leikið sem atvinnumaður frá árinu 2002, ef frá er talinn veturinn 2008-2009 þegar hann spilaði með KR. Horfir hann sáttur um öxl?

„Já, mjög. Ég hef verið svolítið að líta til baka síðustu daga en það eru ekki táraflóð eða tilfinningar eða neitt svoleiðis. Ég er voða rólegur yfir þessari ákvörðun og hef verið að búa mig undir að koma mér heim. Hér vil ég festa rætur með mína fjölskyldu, styttist í að strákurinn fari í skóla og svona og það er gott að hugsa til þess að vera sestur að einhvers staðar,“ segir Jón Arnór Stefánsson.

Nánar er rætt við Jón Arnór í meðfylgjandi myndskeiði þar sem hann talar meðal annars um komandi landsliðsverkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert