Ég er kominn heim

Jón Arnór Stefánssons skrifar undir samning við KR.
Jón Arnór Stefánssons skrifar undir samning við KR. mbl.is/Golli

„Ég hef verið að fá tilboð, flest frá Spáni, og þau hefðu örugglega haldið áfram að koma fram í september. Ég ýtti því öllu frá mér, ákvað að klára þetta og var kannski innst inni þegar búinn að ákveða að koma heim,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið skömmu eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, KR. Hann snýr því aftur heim eftir farsælan feril sem atvinnumaður; nánast sleitulaust frá árinu 2002 ef frá er talinn einn vetur.

Jón Arnór er 33 ára gamall og án efa einn besti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur alið. Hann lék á ferli sínum erlendis með tíu félögum í fimm löndum og varð meðal annars Evrópumeistari, fyrstur íslenskra körfuknattleiksmanna, með rússneska liðinu Dynamo St. Pétursborg árið 2005. Jón lék að auki í Þýskalandi, á Ítalíu, í Bandaríkjunum og á Spáni, en þar spilaði hann síðustu tvö árin við góðan orðstír. Fyrst með Unicaja Málaga og svo Valencia síðasta vetur, og barðist í toppbaráttu með báðum liðum.

„Síðustu tvö ár standa svolítið upp úr og við fjölskyldan vorum mjög ánægð í Málaga og Valencia. Börnunum líkaði vel á leikskóla, við vorum á góðum stað við ströndina og svona. Svo gekk líka vel, við vorum í toppbaráttu sem var mjög skemmtilegt síðustu tvö árin mín. Ég lít sáttur um öxl, það eru engin táraflóð eða tilfinningar. Mér finnst gott að enda ferilinn úti á þessum nótum; að hafa verið í góðu formi að spila vel. Það held ég að sé góður tímapunktur til að stíga frá og koma heim,“ sagði Jón Arnór.

Nánar er rætt við Jón Arnór í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert