EM er stóra markmiðið

Frá fréttamannafundinum í gær þar sem landsliðshópurinn var kynntur.
Frá fréttamannafundinum í gær þar sem landsliðshópurinn var kynntur. mbl.is/Ófeigur

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik leikur fyrsta leik sinn í undankeppni Evrópumótsins 2017 á morgun þegar Ísland mætir Sviss í Laugardalshöllinni. Auk Íslands og Sviss eru landslið Kýpur og Belgíu í riðlinum en efsta sætið gefur sjálfkrafa keppnisrétt á Evrópumótinu. Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen hefur valið 12 manna hóp fyrir leikinn gegn Sviss annað kvöld en alls fara 14 leikmenn með í þrjá útileiki sem leiknir verða á einni viku, 3.-10. september.

Tryggvi fyllir skó Ragnars

Hópurinn sem kanadíski landsliðsþjálfarinn valdi, kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Það er helst fjarvera hins 218 cm. Ragnars Nathanelssonar sem vekur athygli en Ragnar var meðal leikmanna á EM 2015 og hefur verið fastamaður í hóp undanfarin ár.

Miðherjinn er hins vegar ekki valinn að þessu sinni en hinn 18 ára Tryggvi Snær Hlinason kemur inn í hópinn í staðinn. Tryggvi er 215 cm. hár og Pedersen segir hann koma með aðra möguleika inn í liðið.

„Fljótlega eftir að við byrjuðum í undirbúningi okkar fyrir riðlakeppnina, þá ákváðum við að notast annaðhvort við Ragnar eða Tryggva. Báðir hafa sýnt framfarir í sumar. Ragnar stendur Tryggva framar í varnarleiknum í augnablikinu en Tryggvi gefur okkur hins vegar ákveðna möguleika í sókninni og við ákváðum að það væri okkur mikilvægara í þessu verkefni.“

Hópurinn er töluvert breyttur frá EM í fyrra og þar munar mikið um fjarveru Pavels Ermolinskji, sem er meiddur.

„Við komum til með að sakna Pavels en hann er mjög góður að dekka stóra leikmenn. Þeir leikmenn sem eru í hópnum eru ekki síst hugsaðir að vera til taks ef aðrir meiðast. Þá erum við með svipaðar týpur sem geta komið inn og skilað góðri vinnu.

Þetta eru þeir leikmenn sem hafa staðið sig best í sumar en sumir þessara leikmanna hafa styrkleika sem kannski ekki allir sjá í fljótu bragði.“

Nánar er rætt við Pedersen í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert