Hann er nagli inni við beinið

Haukur Helgi Pálsson (t.v.) og Hörður Axel Vilhjálmsson.
Haukur Helgi Pálsson (t.v.) og Hörður Axel Vilhjálmsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var ekki beint stressaður yfir stöðunni en kannski aðeins að við skyldum leyfa þessu að gerast. Við töluðum mikið um að fara ekki á taugum þó að þeir næðu góðum sprettum en þegar það gerðist duttum við aðeins í kæruleysislegan körfubolta. Það var samt flott hjá okkur að komast út úr því,“ sagði Haukur Helgi Pálsson eftir 88:72 sigur Íslands gegn Sviss í undankeppni Evrópumótsins 2017.

Haukur Helgi skoraði 12 stig, tók fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum. Svisslendingar voru ekki að koma framherjanum mikið á óvart.

„Þeir voru í rauninni ekki að gera neitt sem kom okkur á óvart. Mér fannst við gera þetta mjög vel en svo komu kaflar í þriðja leikhluta þar sem þeir náðu að henda boltanum yfir okkur og hjálparvörnin var ekki alveg að virka. Við vorum bara vel undirbúnir og heilt yfir bara flottir í kvöld.“

Enginn leikmaður meiddist í leiknum og það er mikilvægt, þar sem margir leikir á stuttum tíma bíða landsliðsins. Kristófer Acox var þó eitthvað að kveinka sér í leiknum og hélt um hægra hné.

„Það komu sem betur fer allir heilir úr þessu. Kristófer þarf svona aðeins að sýna að það kom eitthvað fyrir hann en hann er nagli inni við beinið,“ sagði Haukur léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert