Frábær byrjun í undankeppni EM

Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson þakkar stuðninginn í kvöld.
Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson þakkar stuðninginn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik byrjar vel í undankeppni Evrópumótsins 2017 en Ísland vann í kvöld Sviss 88:72 þegar liðin mættust í Laugardalshöll. Ísland hefur þar með tvö stig í A-riðli og mætir næst Kýpur ytra.

Strákarnir byrjuðu leikinn vel og náðu snemma góðum tökum á ráðþrota gestunum. Allir sem eitthvað hafa kynnt sér íslenskan körfubolta, eiga að vita hversu góðar skyttur Ísland hefur í liðinu. Svisslendingar virtust hins vegar hafa sleppt því að skoða íslenska liðið alltof vel, því að strákarnir fengu fjölda opinna skota sem þeir nýttu vel.

Boltahreyfingin var til fyrirmyndar og sjóðheit innkoma Loga Gunnarssonar skilaði mest 26 stiga forystu í fyrri hálfleik í stöðunni 47:21. Sviss náði aðeins að rétta sinn hlut undir lok hálfleiksins og að honum loknum, munaði 18 stigum, 47:29.

Svisslendingar hafa greinilega ráðið ráðum sínum í hálfleik því það var allt annað að sjá til liðsins í seinni hálfleik. Hægt og bítandi minnkuðu gestirnir muninn og þegar fjórði leikhluti byrjaði, var staðan 64:54 fyrir Ísland.

 Ísland náði aftur 16 stiga forystu en aftur komu Svisslendingar til baka og minnkuðu muninn í 11 stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Íslenska liðið sýndi hins vegar mikinn styrk og kláraði leikinn örugglega.

Allir leikmenn liðsins skiluðu góðu verki í kvöld. Hörður Axel Vilhjálmsson lék feikilega vel í vörn og sókn, Hlynur var drjúgur að venju og Logi Gunnarsson átti frábæran kafla í fyrri hálfleik.

Stig íslands: Hörður Axel Vilhjálmsson 16, Hlynur Bæringsson 15, Martin Hermannsson 14, Logi Gunnarsson 13, Haukur Helgi Pálsson 12, Jón Arnór Stefánsson 11, Kristófer Acox 7.

Textalýsingu leiksins má sjá að neðan.

Leik lokið. 88:72 fyrir Ísland, sem byrjar með stæl í A-riðlinum. Vel gert drengir, vel gert!

39. mínúta. Staðan er 85:72. Þetta er komið. Nú þarf bara að vinna þetta sem stærst. Stigamunur mun skipta máli í þessum riðli.

37. mínúta. Staðan er 81:65. Báðir stóru mennirnir hjá Sviss eru komnir með fimm villur. Þetta lítur vel út. Craig Pedersen tekur leikhlé og vill sigla skútunni í höfn.

36. mínúta. Staðan er 81:65. Strákarnir eru á góðri leið með að klára þetta. Svisslendingar eru komnir í villuvandræði og virka örlítið þreyttir. Það má þó ekki missa einbeitingu. Stigin koma fljótt í körfubolta.

34. mínúta.Staðan er 76:59. Frábær sprettur! Martin trúðar alla vörn Sviss, skorar og fær víti að auki. Ísland vinnur boltann í vörninni og Jón Arnór er fremstur í auðveldu sniðskoti. Leikhlé Sviss.

Haukur Helgi Pálsson í þann mund að skora gegn Sviss …
Haukur Helgi Pálsson í þann mund að skora gegn Sviss í fyrsta leikhluta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðja leikhluta lokið. Staðan er 64:54. Tíu stiga forysta þegar tíu mínútur eru eftir. Sviss hefur étið niður 24 stiga forystu og strákarnir eru að hafa mikið fyrir hverju stigi í augnablikinu. Við þurfum að fá betri boltahreyfingu og þá kemur þetta!

29. mínúta. Staðan er 61:52. Varnarleikur Sviss er grimmur og strákarnir eru að taka erfið skot. Sviss dælir boltanum inn í teiginn og þetta lítur ekki vel út núna.

27. mínúta. Staðan er 61:47. Kristófer gerir vel að fá tvö víti en setur hvorugt skotið niður. Sviss svar með silkimjúku skoti í spjaldið og niður.

26. mínúta. Staðan er 57:43. Flottur kafli Íslands núna. Kristófer setur niður tvö vítaskot og Hlynur skorar þriggja stiga körfu. Nú er bara að halda dampi. Leikhlé hjá Sviss.

24. mínúta. Staðan er 52:43. Leikhlé Ísland. Gestirnir eru að vinna seinni hálfleikinn 14:5!

23. mínúta. Staðan er 52:41. Það er miklu meiri barátta og liðsandi yfir svissneska liðinu núna. Ekki bætir úr sök að Haukur Helgi er kominn með fjórar villur.

22. mínúta. Staðan er 47:34. Gestirnir skora fyrstu fimm stig seinni hálfleiks. Koma svo drengir, upp með sokkana!

Seinni háfleikur er hafinn.

Hálfleikur. Logi Gunnarsson hefur skorað 13 stig og er stigahæstur. Martin Hermannson er með 11 stig og Haukur Helgi Pálsson er með 7 stig. Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson hefur að vanda barist vel undir körfunni og er með fimm stig og sjö fráköst. Þá ber að geta þess að Hörður Axel Viljhjálmsson er með sjö stoðsendingar og hefur líka leikið vel í vörn. Tökum smá kaffipásu, áfram Ísland!

Hálfleikur. Staðan er 47:29. Sviss nær að minnka muninn í 18 stig að loknum fyrri hálfleik. Ísland hefur haft undirtökin frá fyrstu mínútu og komst mest 24 stigum yfir í stöðunni 45:21. Sviss vann lokakaflann hins vegar 8:2 og eru eflaust nokkuð sáttir við að vera „bara“ 18 stigum undir.

18. mínúta. Staðan er 47:25. Tryggvi Snær Hlinason er kominn inn á völlinn í sínum fyrsta „alvöru“ landsleik.

17. mínúta. Staðan er 45:21. Úff, Logi ber svo innilega nafn með réttu. Þegar drengurinn hitnar, þá er hann bara ómannlegur. Tvær draumakörfur úr horninu í röð og hann er með 13 stig.

16. mínúta. Staðan er 40:21. Martin Hermannsson setur sjöunda þristinn hjá Íslandi og Svisslendingar fórna höndum. Þeir hafa greinilega ekki kynnt sér íslenska liðið ef hittni strákanna er að koma þeim á óvart.

14. mínúta. Staðan er 37:21. Ísland tók leikhlé og Pedersen vill aðeins skerpa á hlutunum. Gestyirnir eru að taka svolítið mörg sóknarfráköst og það þarf að stíga betur út. Hlynur Bæringsson byrjar bara á því að setja þrist. Vel gert hjá fyrirliðanum.

13. mínúta. Staðan er 32:19. Átta stig Loga Gunnarssonar í röð en Dusan Mladjen svarar með þriggja stiga körfu. Sá leikmaður er mjög seigur og er kominn með 8 stig.

12. mínúta. Staðan er 30:16. Glæsileg þriggja stiga karfa Loga og villa dæmd á Sviss frá boltanum. Það þýðir að við fáum boltann aftur og AFTUR skorar Logi þrist!! Frábært Logi Gunnarsson!

11. mínúta. Staðan er 24:16. Óíþróttamannsleg villa dæmd á Sviss en Haukur misnotar bæði skotin.

Ægir Þór Steinarsson, Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson klappa …
Ægir Þór Steinarsson, Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson klappa fyrir stuðningsmönnum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

1. leikhluta lokið Staðan er 24:16. Svisslendingar eru aðeins að minnka muninn núna. Þeir eru með 2-3 mjög góðar skyttur og vörnin er að virka betur eftir frábæra byrjun Íslands. Stemmingin er líka örlítið að kvikna á bekknum hjá gestunum en strákarnir hafa verið betri fyrstu 10 mínúturnar. Haukur Helgi er stigahæstur með 7 stig og Martin er með 6 stig.

8. mínúta. Staðan er 22:9. Stigaskorun hefur hægt á sér og liðin eru að finna fjölina betur í vörninni. Ísland heldur undirtökunum.

6. mínúta. Staðan er 22:9. Þreföld skipting hjá Íslandi. Kristófer, Ægir og Logi koma inn fyrir Jón Arnór, Hörð Axel og Hauk Helga. Krsitófer setur strax stig af vítalínunni.

5. mínúta. Staðan er 19:7. Hörður Axel fer á kostum núna. Fyrst með frábærri „alley-oop“ sendingu á Martin og svo með fallegum þrist.

4. mínúta. Staðan er 14:5. Frábær kafli Íslands! 10 stig í röð, þar af tveir þristar frá Jóni og Hauk Helga. Sviss tekur leikhlé.

3. mínúta. Staðan er 8:5. Þrjár körfu frá Martin og Jóni breyta stöðunni. Stökkskotið hans Jóns er yndislegt, það er bara þannig.

2. mínúta. Staðan er 4:5. Sviss jafnaði í 2:2, Martin skoraði úr tveimur vítum en þá kom þristur í andlitið á okkur.

1. mínúta. Staðan er 2:0. Haukur Helgi Pálsson skorar fyrstu stig leiksins af vítalínunni.

Leikurinn er hafinn.

Fyrir leik: Þá eru formsatriðin búin og rúmar tvær mínútur í að leikurinn hefjist. Þess má geta að Belgía vann öruggan sigur á Kýpur í dag en þessi lið leika með Íslandi og Sviss í riðli. Lokatölur urðu 65:46 en flestir búast við öruggum sigri Belga í þessum riðli.

Fyrir leik: Hér eru menn m.a. að taka í höndina á Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og svo verður spólað beint í þjóðsöngvana.

Fyrir leik: Svisslendingarnir hita upp beint fyrir framan mig hér í Laugardalshöll. Hlynur Bæringsson sagði við mig fyrir leik að þeir væru ekkert sérstaklega miklir risar. Ekki veit ég hvernig Hlynur skilgreinir risa en þeir eru fjári stórir í mínum augum!

Ísland og Sviss eigast við í undankeppni EM karla í körfubolta í Laugardalshöllinni klukkan 19:30. Fylgst er með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. 

Er þetta fyrsti leikur liðanna í undankeppninni. Í riðlinum eru einnig Belgía og Kýpur og spila allir við alla. 

Ísland komst í lokakeppni EM í fyrsta skipti síðasta haust en riðill Íslands fór þá fram í Berlín eins og íþróttaáhugafólk þekkir. 

Hlynur Bæringsson er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Hlynur Bæringsson er fyrirliði íslenska landsliðsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jón Arnór Stefánsson og þjálfarinn Craig Pedersen.
Jón Arnór Stefánsson og þjálfarinn Craig Pedersen. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert