„Vorum að hlaupa af okkur hornin“

Jón Arnór Stefánsson þakkar stuðninginn í kvöld ásamt Ægi Þór …
Jón Arnór Stefánsson þakkar stuðninginn í kvöld ásamt Ægi Þór Steinarssyni og Loga Gunnarssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Jón Arnór Stefánsson var mjög sáttur við að hefja nýja undankeppni á sigri á Sviss þegar mbl.is ræddi við hann í Laugardalshöll í kvöld. 

„Við vorum að hlaupa af okkur hornin. Við byrjuðum rosalega sterkt en í svona leikjum þurfum við einnig að geta tekið mótlæti. Þegar þeir komu einbeittir til leiks í seinni hálfleik þá fannst mér okkur takast að vinna okkur ágætlega út úr því. Við biðum bara eftir því að við næðum aftur yfirhöndinni og náðum alla vega að vinna sextán stiga sigur sem er mjög sterkt í fyrsta leik myndi ég segja,“ sagði Jón en úrslitin urðu 88:72. 

Framundan eru fimm leikir til viðbótar en í riðlinum eru einnig Belgía og Kýpur. Lið Belgíu lék vel á EM í fyrra og Kýpur hefur af og til reynst erfiður andstæðingur á Smáþjóðaleikunum. Nú eru íslenskir íþróttaunnendur orðnir kröfuharðir og heimta sjálfsagt að Ísland komist aftur í lokakeppni. Verður liðið ekki að vinna Sviss á heimavelli til að eiga möguleika á því að komast aftur á EM?

 „Jú jú, þetta var klárlega skyldusigur í því samhengi. Mér fannst við tala of mikið um í hálfleik að hleypa þeim ekki aftur inn í leikinn en það er akkúrat það sem gerðist um tíma. Ég hefði viljað spila bara og pæla ekki of mikið í stöðunni en við lærum af því,“ sagði Jón Arnór ennfremur. 

Jón Arnór lætur vaða í leiknum í kvöld.
Jón Arnór lætur vaða í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert