„Var létt stressaður“

Kristófer Acox í leiknum í kvöld.
Kristófer Acox í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristófer Acox lék sinn fyrsta A-landsleik í stórkeppni, með fullri virðingu fyrir Smáþjóðaleikunum, þegar Ísland vann Sviss 88:72 í undankeppni EM í Laugardalshöll í kvöld. 

„Tilfinningin var bara góð. Var reyndar létt stressaður að koma inn á enda full höll og aðeins stærra dæmi heldur en Smáþjóðaleikarnir. En þegar ég hafði skokkað fram og til baka nokkrum sinnum þá var ég orðinn góður. Ég er mjög ánægður með að byrja keppnina á svona sterkum sigri,“ sagði Kristófer sem leikur í bandarísku háskóladeildinni, NCAA, og á eitt ár eftir í Furman-skólanum. Nokkra athygli vakti þegar skólinn gaf honum ekki frí til að spila fyrir Ísland á EM í fyrra en engin slík vandamál eru uppi nú. 

Kristófer lék margar mínútur í kvöld en segir hlutverk sitt í liðinu geta breyst á milli leikja og eftir því hver andstæðingurinn er. „Haukur (Helgi Pálsson) lenti náttúrlega í villuvandræðum. Ég er ánægður með að vera í hópnum og reyni að gera eins og ég get fyrir liðið þegar ég kem inn á. Ég gef mig allan í þetta.“

Kristófer virtist verða fyrir einhverjum hnémeiðslum í síðari hálfleik en sagðist ekki telja þau vera alvarleg. „Ég fékk ekki högg. En þetta kemur stundum fyrir í vinstra hnénu ef ég er of stífur. Ég kæli þetta bara og ætti að vera orðinn góður á morgun,“ sagði Kristófer Acox ennfremur við mbl.is í kvöld.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert