Þriðja tilraun Keflvíkinga heppnaðist

Keflavík lauk síðustu leiktíð með Jerome Hill sem sinn bandaríska …
Keflavík lauk síðustu leiktíð með Jerome Hill sem sinn bandaríska leikmann. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Keflavík hefur samið við bandarískan leikmann fyrir komandi keppnistímabil í Dominos-deild karla í körfubolta. Kappinn heitir Amin Stevens og er rúmlega tveggja metra kraftframherji.

Keflavík hafði áður verið búin að gera munnlegt samkomulag við tvo leikmenn sem hættu svo við áður en búið var að skrifa undir samning. Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur, sem nú er reyndar í leyfi samkvæmt læknisráði, sagðist í síðustu viku aldrei hafa lent í öðru eins þegar kæmi að því að landa bandarískum leikmanni, eins og íslensku félögin gera á hverju sumri. Nú er hins vegar búið að leysa málið og Stevens leikur með Keflvíkingum í vetur.

Stevens lék nú síðast í efstu deild Þýskalands með prýðilegum árangri, eins og segir á heimasíðu Keflavíkur. Hann hefur einnig leikið í Slóvakíu og Austurríki eftir að hafa leikið í þrjú ár með Flordia A&M háskólanum í Bandaríkjunum.

Á heimasíðu Keflavíkur segir að Stevens sé góður íþróttamaður sem frákasti vel og spili góða vörn. Hann sé fjölhæfur leikmaður og sterkur í kringum körfuna.

Keppni í Dominos-deild karla hefst 6. október en fyrsti leikur Keflvíkinga er gegn Njarðvík þann 7. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert