Pálína til Snæfells

Pálína María í baráttu við Haiden Palmer í úrslitaeinvígi Hauka …
Pálína María í baráttu við Haiden Palmer í úrslitaeinvígi Hauka og Snæfells í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð. mbl.is/Eggert

Landsliðskonan Pálína María Gunnlaugsdóttir hefur ákveðið að ganga til liðs við Íslandsmeistara Snæfells en hún lék með Haukum á síðustu leiktíð.

Pálína staðfesti í samtali við mbl.is að hún sé gengin í raðir Snæfells og ljóst er að koma hennar til félagsins er mikill liðsstyrkur enda hefur Pálína verið einn besti leikmaður landsins undanfarin ár. Pálína var í tapliði Hauka í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í vor þar sem Snæfell hafði betur í oddaleik.

Að sama skapi er þetta mikil blóðtaka fyrir Haukana sem hafa einnig misst Helenu Sverrisdóttur úr sínu liði en Helena er ófrísk.

Samningur Pálínu við Snæfell er til eins árs en hún skoraði 10,9 stig að meðtali fyrir Haukana í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð og skilaði góðu framlagi í varnarleiknum.

Þá hefur Berglind Gunnarsdóttir framlengt samning sinn við Snæfell til eins árs en hún skoraði 8,9 stig að meðtali fyrir liðið í deildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert