„Hlusta ekkert á spekingana á Stöð 2“

Sigtryggur Arnar Björnsson, áður en hann hóf að skarta fléttunum.
Sigtryggur Arnar Björnsson, áður en hann hóf að skarta fléttunum. mbl.is/Ómar

Sigtryggur Arnar Björnsson var líklega sá maður í liði Skallagríms sem spilaði hvað best í kvöld þegar Borgnesingar lögðu Þór í Dominos-deild karla.

Eins furðulega og það kann að hljóma notar drengurinn Arnars nafnið og þegar blaðamaður mbl.is sagðist vilja fá massaðasta leikmann Skallagríms í viðtal þá var augljóst við hvern hann átti. Arnar var mættur fram á gang nokkru síðar og var fyrst spurður út í leikinn, sem Skallagrímur vann 81:90.

„Þetta var sterkur leikur hjá okkur. Við vorum yfir í leiknum og spiluðum hann vel. Það var á kafla í þriðja leikhlutanum sem við duttum aðeins niður en vorum fljótir að komast aftur yfir. Við vorum með gott plan fyrir þennan leik. Við lögðum af stað snemma og gáfum okkur tíma til að stoppa og rétta úr okkur á leiðinni. Við mættum því mjög ferskir til leiks. Ég tel það hafa skipt miklu máli.“

Hefðum átt að vera komnir með einhver stig

Liðið var nú að vinna fyrsta sigurinn í deildinni þrátt fyrir góða spilamennsku.

„Já við hefðum átt að vera komnir með einhver stig því við höfum í raun átt frábæra leiki. Það hefur hins vegar klikkað aðeins að hitta ofaní körfuna og því var staðan þessi fyrir leikinn í kvöld. Svo er bara að nýta meðbyrinn og reyna að vinna næsta leik gegn ÍR á heimavelli. Við verðum að fara að vinna heimaleik.“

Þið voruð ekkert smeykir við Þórsarana?

„Nei. Maður er aldrei hræddur. Þór er með hörkulið en við líka. Við erum með mikla reynslubolta. Darrell Flake og Maggi Gunnars eru mjög mikilvægir fyrir okkur og hjálpa okkur mjög mikið. Svo er Flenard Whitfield virkilega sterkur. Hann sýndi það heldur betur í kvöld.“

Hann var þó ekki með neina loftfimleika, hélt sig niðri á jörðinni.

„Já, hann kannski sýnir meira í næsta heimaleik. Hann var meira í að gera einföldu hlutina vel í stað þess að vera með einhverja sýningu. Það er kannski betra að hafa það þannig og vinna leikina. Hann var samt að berjast fyrir sínu og gerði það sem þurfti. Þessi maður er bara tröll og góður liðsmaður.“

Að lokum varð blaðamaður að spyrja Arnar aðeins úr í hárgreiðsluna sem hann skartar þessi misserin, fléttur sem virka eins og hann sé með sítt að aftan. Ekki eru allir jafn hrifnir af þessu og hafa menn gagnrýnt Arnar fyrir að líta ekki nógu vel út.

„Ég geri bara það sem ég vil og hlusta ekkert á spekingana á Stöð 2 sem hafa verið að spjalla um þetta. Það er bara fínt að þeir eru að setja út á þetta. Það er bara gaman“ sagði Arnar að lokum og dreif sig síðan í annað viðtal, einmitt fyrir þáttinn Körfuboltakvöld á Stöð 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert